Skip to main content

Fréttir

Fræðslufundur Nafnfræðifélagsins um skráningu örnefna í Borgarfirði

Nafnfræðifélagið heldur fræðslufund laugardaginn 21. apríl nk., kl. 13.15 í stofu 201 í Odda, húsi Háskóla Íslands.

Ragnhildur Helga Jónsdóttir umhverfislandfræðingur heldur fyrirlestur sem hún nefnir Skráning örnefna í Borgarfirði.

Á síðustu 20 árum hefur verið unnið mikið starf við skráningu og kortlagningu örnefna í Borgarfirði, bæði á vegum Félags aldraðra í Borgarfjarðardölum og sem BS-verkefni í landfræði við Háskóla Íslands. Reynslan hefur sýnt að það er hver að verða síðastur að ná til heimildarmanna sem þekkja örnefnin og staðsetningu þeirra.

Síðustu misseri hefur verið unnið að skráningu örnefnanna í örnefnasjá Landmælinga Íslands og er það besta mögulega leið til að varðveita og miðla þeim mikilvægu heimildum sem felast í örnefnum. Þessi skráning gefur möguleika á margs konar þróunarverkefnum næstu árin, hvort sem það tengist leiðsögn í gegnum snjallsíma, uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu, miðlun þjóðsagna eða öðru.

Í fyrirlestrinum verður sagt frá þessum verkefnum sem þarna hafa verið unnin, þeim árangri sem náðst hefur og framtíðarsýn. 

Ragnhildur Helga Jónsdóttir er með meistarapróf frá Háskóla Íslands. Hún er sjálfstætt starfandi sérfræðingur í sögu landnýtingar á Íslandi.

Kaffiveitingar að loknum fyrirlestri.

Nafnfræðifélagið: svavar@hi.is