Skip to main content

Fréttir

Fræðsluferð um miðaldahandrit lokið

Miðar úr bókfelli sem ungir skrifarar hafa skreytt með stöfum og teikningum.

Laugardaginn 9. apríl lauk fræðsluferð um miðaldahandrit á vegum framtaksins List fyrir alla. Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur og Eva María Jónsdóttir, verkefnisstjóri á Árnastofnun, heimsóttu grunnskóla á Snæfellsnesi og í Borgarfirði og héldu einnig skrifarastofu í Amtsbókasafninu í Stykkishólmi.

Ferðin hófst með heimsókn í Laugagerðisskóla á mánudegi og lauk með skrifarasmiðju í miðaldastíl í Landnámssetrinu í Borgarnesi á laugardegi. Í millitíðinni komu þær við á Hellissandi, Ólafsvík, Grundarfirði, Stykkishólmi, Borgarnesi og á Kleppjárnsreykjum.

Í hverjum skóla söfnuðust nemendur á miðstigi saman og fengu fræðslu um hvernig bók Arndísar Þórarinsdóttur Bál tímans varð til við innblástur frá handritaarfinum. Nemendur og starfsfólk tók vel á móti þessum farandfræðurum og sýndu handritunum og menningunni í kringum þau einlægan áhuga.