Fræðarar frá Árnastofnun héldu áfram hemsóknum sínum í grunnskóla landsins og heimsóttu Austurland í síðustu viku. Ferðir fræðara eru einn liður verkefnisins Handritin til barnanna.
Nokkrir skólar treystu sér ekki til að taka á móti gestum vegna farsóttar og takmarkana af völdum hennar. Hvarvetna sem þeir Snorri Másson og Jakob Birgisson héldu erindi sitt sem er blanda af fræðslu og skemmtun var þeim vel tekið og grunnskólanemar voru óhræddir við að spyrja krefjandi spurninga. Yfirreiðinni lauk svo með vel sóttu og skemmtilegu opnu húsi í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, þar sem börn og fullorðnir komust í snertingu við handritamenninguna og óravíddir orðaforða íslenskrar tungu.
Vegna samkomutakmarkana þarf að slá næstu ferðum fræðaranna á frest og sömuleiðis opnum húsum sem ráðgerð voru í menningarhúsum víða um land.