Skip to main content

Fréttir

Frá ársfundi EFNIL

Handhafar verðlauna frá EFNIL standa sitt hvoru megin við Sabine Kirchmeier forseta EFNIL
Verðlaunahafar ásamt Sabine Kirchmeier forseta EFNIL
Ljósm.: Cecilia Robustelli

Ársfundur EFNIL (European Federation of National Institutions of Language) var haldinn í Vilnius 11.−13. október. Jafnframt fór þá fram hin árlega ráðstefna samtakanna og var aðalumræðuefnið fólksflutningar og tungumál. Fjallað var um máltileinkun og aðlögun að málaðstæðum í nýju landi, margar hliðar á fjölmála málaðstæðum og um stöðu og afdrif tungumála þeirra sem flust hafa búferlum í stórum stíl milli landa. Óhætt er að segja að fyrirlestur frá Úkraínu um málaðstæður á hinum hernumdu svæðum, og tungumál sem tæki í stríðsátökum, hafi hreyft við ráðstefnugestum.

Á ársfundinum voru veitt hin árlegu verðlaun EFNIL fyrir framúrskarandi meistararitgerðir á sviði tungumála, málvísinda og málstefnu. Verðlaunin 2022 hlutu þessi tvö sem luku MA-námi 2021 með eftirtöldum ritgerðum:

Chiara Ceppi (Université de Lausanne): The Face and Voice of SBB CFF FFS: A Sociolinguistic Study of Multilingualism for the Branding of a Swiss Institution.  Rannsóknin sneri að málviðhorfum og málhegðun hjá svissnesku járnbrautunum (SBB). Höfundur sýnir til dæmis hvernig og hvers vegna starfsmenn í lestunum velja milli þýsku, frönsku og ítölsku og beita málunum á mismunandi vegu, m.a. eftir því hvar í landinu lestin er stödd.

Riccardo Bravi (Universitá di Bologna): Deutsche Bundesbank e Banca d’Italia. La conoscenza enciclopedica condivisa in una comunità socioprofessionale di parlanti. Viðfangsefnið er tvímála íðorðaheimur á sviði hagfræði og fjármála þar sem höfundur beitir sértækri aðferð við hugtakagreiningu og skráningu. Efniviðurinn var annars vegar fjórar ræður seðlabankastjóra Ítalíu og hins vegar kollega hans í Þýskalandi.

Verkefnisstjórar evrópsku ritgerðasamkeppninnar eru Åse Wetås frá norska Språkrådet og Ari Páll Kristinsson, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Frá Íslandi var auk Ara Páls á ársfundinum fulltrúi Íslenskrar málnefndar, Steinunn Stefánsdóttir. Bæði nýttu sér fjarfundafyrirkomulagið sem var í boði, en um helmingur þátttakenda var á staðnum.