Skip to main content

Fréttir

Forvörður við handritasvið Árnastofnunar

Árnagarður.

 

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum auglýsir starf forvarðar á handritasviði laust til umsóknar. Um er að ræða fullt starf.

Á handritasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Árnagarði fara fram rannsóknir á handritum, undirbúningur að útgáfum; viðgerðir, ljósmyndun og skráning handrita. Starf forvarðar er einkum fólgið í forvörslu og viðgerðum á þeim handritum sem stofnunin varðveitir en það eru bæði skinn- og pappírshandrit. Einnig fylgist forvörður með að handritin séu ávallt varðveitt við bestu skilyrði, bæði í geymslu og á sýningum.

Menntunar- og hæfniskröfur: Umsækjendur skulu hafa lokið prófi í forvörslufræðum frá viðurkenndum háskóla eða sérhæfðri menntastofnun. Nauðsynlegt er að þeir hafi menntun og reynslu á sviði forvörslu skinnhandrita. Mikilvægt er að viðkomandi geti sýnt frumkvæði og unnið sjálfstætt og sé einnig lipur í samstarfi. Ekki er nauðsynlegt að viðkomandi hafi íslensku að móðurmáli en ætlast er til þess að sá sem fær stöðuna leggi sig fram um að ná góðum tökum á íslensku og nauðsynlegt er að hann eða hún geti tjáð sig vel bæði munnlega og skriflega á ensku.

Laun eru skv. kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana eða Félags háskólakennara og fjármálaráðherra. Áætlað er að ráða í starfið frá og með 1. mars 2015, til þriggja ára með möguleika á áframhaldandi ráðningu.

Umsóknin: Umsóknarfrestur er til 20. desember og skal umsóknum skilað til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Árnagarði við Suðurgötu, IS-101 Reykjavík eða rafrænt á netfangið kari@hi.is. Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni prófskírteini eða staðfest afrit þeirra og skýrslu um starfsferil sinn. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja nöfn tveggja einstaklinga sem eru til þess bærir að veita umsagnir um verk þeirra og hæfni.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Margrét Eggertsdóttir, sviðsstjóri handritasviðs, sími 5254014, netfang: megg@hi.is