Forseti Slóveníu dr. Danilo Türk og eiginkona hans frú Barbara Miklič Türk komu í opinbera heimsókn til Íslands þriðjudaginn 3. maí og dvöldu hér í tvo daga. Með forsetanum komu þrír ráðherrar í ríkisstjórn Slóveníu auk embættismanna. Þá fylgdi forseta Slóveníu viðskiptasendinefnd, með fulltrúum ríflega 20 slóvenskra fyrirtækja, og blaðamenn.
Heimsóknardagana heimsótti Barbara Miklič Türk, forsetafrú Slóveníu, m.a. Hönnunarsafn Íslands, vinnustofur ungra listamanna, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi og handritasýninguna hér í Þjóðmenningarhúsinu. Markús Örn Antonsson, forstöðumaður Þjóðmenningarhússins, tók á móti forsetafrúnni við komuna í húsið og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, veitti henni leiðsögn um handritasýninguna.