Skip to main content

Fréttir

Forsætisráðherra Íslands afhendir Norðmönnum þjóðargjöf

(Frétt fengin af vef forsætisráðuneytisins 28.10. 2013)

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra afhenti nú síðdegis Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs þjóðargjöf Íslendinga til Norðmanna í tilefni af því að árið 2005 voru 100 ár liðin frá endurreisn norska konungdæmisins. Fór afhendingin fram við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í Osló.

Þjóðargjöfin samanstendur af fimm bindum og hefur Hið íslenzka fornritafélag haft veg og vanda af útgáfunni. Er um að ræða nýjar útgáfur norskra konungasagna, sem allar voru ritaðar á Íslandi á miðöldum. Árið 2007 kom Sverris saga út og Morkinskinna í tveimur bindum árið 2011. Í haust komu út tvö bindi með Hákonar sögu og Böglunga sögu.

Allar eru sögurnar mikilvægar heimildir um sögu Noregs og voru bindin fimm afhent í viðhafnarútgáfu. Af þessu tilefni hélt forsætisráðherra ávarp um norsku konungasagnirnar og tengsl þeirra við Ísland.

 

Við afhendingu bókagjafarinnar í Þjóðarbókhlöðunni í Osló. Frá vinstri: Vigdis Moen Skarsten, Erna Solberg forsætisráðherra Noregs, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra Íslands, Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunnar og Þórður Ingi Guðjónsson ritstjóri Íslenzkra fornrita.