Skip to main content

Fréttir

Fjölbreytt dagskrá í Hofi 13. nóvember

Hof. Ljósmynd: Auðunn Níelsson.

 

AFMÆLISDEGI ÁRNA MAGNÚSSONAR FAGNAÐ Á AKUREYRI

 

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skaut upp kollinum í Hofi 13. nóvember 2016, á milli kl. 15-18.

 

Þjóðfræðingarnir Rósa Þorsteinsdóttir og Gísli Sigurðsson sögðu frá og svöruðu fyrirspurnum um söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun á þjóðfræðisviði stofnunarinnar, sýndu og skýrðu opinn aðgang að hljóðsafni stofnunarinnar í gegnum ismus.is og kynntu nokkrar útgáfur (bækur, hljóðdiska og netbirtingu) byggðar á hljóðsafninu. Systurnar Anna Halldóra og Kristín Sigtryggsdætur komu við og kváðu stemmur fyrir gesti.

 

Íslenskt orðanet lýsir íslenskum orðaforða og innra samhengi hans. Það byggist á víðtækri greiningu á merkingarvenslum orða og orðasambanda og sameinar hlutverk samheita- og hugtakaorðabókar. Jón Hilmar Jónsson skýrði í Hofi hvernig Orðanetið kemur að hagnýtum notum við ritun og textagerð, hvort sem er í námi, leik eða starfi.

 

Icelandic Online er nýtt og ókeypis íslenskunámskeið fyrir innflytjendur, hannað fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Það getur reynst lykill að daglegu lífi á íslensku og gefur tækifæri til að læra íslensku hvar og hvenær sem er. Úlfar Bragason og Kolbrún Friðriksdóttir voru áhugasömum innan handar en fólk tók snjallsíma sína með sér og lærði að nýta sér námskeiðið í gegnum þá. 

 

Skrifarastofa í umsjá Svanhildar Maríu Gunnarsdóttur var á staðnum. Þar var hægt að setjast niður og setja sig í spor handritaskrifara miðalda og munda fjaðurpenna, dýfa í heimalagað blek og rita á bókfell (verkað kálfskinn). Bæði börn og fullorðnir hafa mikla ánægju af slíku. 

 

Barnabókasetur í umsjá Brynhildar Þórarinsdóttur sem sýndi dæmi um handrit að nútímabarnabók.  Arnar Már Arngrímsson, sem hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ungmennabókina Sölva saga unglings, las upp úr bókinni fyrir tilheyrendur.

Margrét Eggertsdóttir Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir

Dagskránni á göngum Hofs lauk þegar Margrét Eggertsdóttir flutti fyrirlestur Árna Magnússonar kl. 17.00.

Hér má finna nánari upplýsingar um fyrirlestur Margrétar.

 

Allir eru velkomnir.