Félag íslenskra fræða
Rannsóknarkvöld fimmtudaginn 26. mars 2015, kl. 20
Hljóðbergi í Hannesarholti, Grundarstíg 10, gengið inn frá Skálholtsstíg
Á öðru rannsóknarkvöldi FÍF að vori flytur Steinar Matthíasson erindið: Íslenskar alþýðusögur um 1860: Söfnun Maurers. Athugið að rannsóknarkvöldið er að þessu sinni á fimmtudegi.
Þýski fræðimaðurinn Dr. Konrad Maurer ferðaðist um Ísland sumarið 1858 og safnaði þá meðal annars þjóðsögum, sem hann gaf út á þýsku árið 1860 undir titlinum Isländische Volkssagen der Gegenwart. Áður höfðu íslenskar þjóðsögur aðeins komið út í lítilli bók sem þeir Magnús Grímsson og Jón Árnason höfðu safnað til. Maurer hafði sannarlega mikil áhrif á þjóðsagnasöfnun því m.a. gerðist hann hvatamaður þess, að þeir félagar, Jón Árnason og Magnús Grímsson, héldu áfram söfnun sinni og bauðst til að útvega útgefanda í Þýskalandi. Efnisflokkun hans á íslenskum þjóðsögum hefur einnig orðið fyrirmynd flestra útgefinna þjóðsagnasafna frá því safn hans kom út. Margir telja, að óathuguðu máli, að Jón Árnason hafi þýtt eða endursagt allar sögurnar úr safni Maurers, en því fer fjarri og í safni Maurers er að finna sagnir sem hafa ekki birst annars staðar. Það var því löngu orðið tímabært íslenska safn hans og gefa út. Steinar Matthíasson segir frá þjóðsagnasafni Maurers og þýðingu þess yfir á íslensku.
Steinar Matthíasson kenndi þýsku og íslensku við framhaldsskóla en starfar nú sem leiðsögumaður og þýðandi. Steinar þýddi bókina en Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ritstýrði verkinu og ritaði inngang.