Skip to main content

Fréttir

Farkennsla safnkennara í grunnskóla á landsbyggðinni heldur áfram

Dagana 5. til 8. maí síðastliðinn var þráðurinn tekinn upp að nýju með farandkennsluverkefni safnkennara Árnastofnunar þegar fimm grunnskólar á Vesturlandi voru heimsóttir, nánar tiltekið á Snæfellsnesi og á Reykhólum. Skólarnir eru: Grunnskólarnir í Grundarfirði, Ólafsvík og Stykkishólmi auk Lýsuhólsskóla og Grunnskólans á Reykhólum. Þar með hafa 40 skólastofnanir víðsvegar um landið verið heimsóttar (að heimsókn á Lagningadaga í Menntaskólanum við Hamrahlíð í febrúar 2014 meðtalinni) og lýkur hér með hinni skipulögðu áætlun, sem lagt var upp með í mars 2014, þegar safnfræðsluverkefnið Heimsóknir í grunnskóla á landsbyggðinni hófst með móttöku 6. bekkjar nemenda úr grunnskólum á Akranesi í Bókasafni Akraness þar sem eftirgerð Staðarhólsbókar rímna var á sýningu. Aðstoðarkennari í verkefninu var Johnny Finnssøn Lindholm doktorsnemi við HÍ.

Hér fyrir neðan má lesa ítarlegar um skólaheimsóknirnar sem farið var í vítt og breitt um landið frá mars 2014 til nóvember 2014.

Svanhildur María Gunnarsdóttir, safnkennari á Árnastofnun, hefur frá árinu 1996 skipulagt safnkennslu á handritasýningum Árnastofnunar og tekið á móti skólahópum og boðið upp á fræðslu um handritin og efni þeim tengt. Forsendur fræðslunnar hafa nú breyst og hefur Svanhildur María lagt land undir fót með safnfræðsluverkefnið og heimsótt grunnskóla á landsbyggðinni. Fyrsti viðkomustaður var Akranes en dagana 11.–18. mars fræddi Svanhildur María nemendur 6. bekkja Brekkubæjarskóla og Grundaskóla á Akranesi um handritin og handverk fyrri tíða, Árna Magnússon handritasafnara og söfnunarstarf hans.

Í apríl lá leiðin með farandkennsluna í Húnavatnssýslu eystri og vestri (9., 10. og 11. apríl) þar sem nemendur miðstigs Höfðaskóla á Skagaströnd, Blönduskóla á Blönduósi, Húnavallaskóla og Laugabakkaskóla voru heimsóttir í tengslum við sýningu á eftirgerð Flateyjarbókar á Þingeyrum.Fræðslan fór fram á Bókasafni Akraness þar sem eftirgerð Staðarhólsbókar rímna var til sýnis frá 1. febrúar til 21. mars og var þar með fylgt eftir sýningu, á eftirgerð handritsins, sem opnuð var að Laugum í Sælingsdal sumarið 2013.

Í maí voru nemendur Grunnskóla Árnessýslu heimsóttir (í Sunnulækjaskóla og Vallaskóla á Selfossi, Barnaskóla Eyrarbakka og Stokkseyrar og Flóaskóla (6., 8. og 19. maí) í tengslum við sýningu á eftirgerð Skáldskaparmála í Húsinu á Eyrarbakka

Á  Fljótsdalshéraði voru nemendur  í Hallormsstaðaskóla, Fellaskóla í Fellabæ, Egilsstaðaskóla, Brúarásskóla auk Seyðisfjarðarskóla heimsóttir dagana 12., 13. og 14. maí vegna sýningar á eftirgerð Margrétar sögu á Skriðuklaustri.

Af Héraði lá svo leiðin í Dalvíkurbyggð og nemendur 6. bekkjar Dalvíkurskóla heimsóttir þann 16. maí (fyrirhuguð heimsókn í Árskógarskóla 15. maí féll niður vegna verkfalls grunnskólakennara) vegna sýningar á eftirgerð skinnblaða úr Physiologus-dýrafræði í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík.

Farandkennslunni á þessu vori lauk með heimsókn til miðstigs, 5.–7. bekkjar í Auðarskóla í Búðardal, þriðjudaginn 20. maí og enn og aftur í tengslum við sýninguna á Staðarhólsbók rímna að Laugum í Sælingsdal.

Að loknu sumarfríi var farandkennslan tekin upp að nýju í september þegar nemendur Grunnskóla Ísafjarðarbæjar (í Grunnskólanum á Ísafirði, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri) auk nemenda í Grunnskóla Bolungarvíkur og Súðavíkurskóla voru heimsóttir dagana 15., 16., 17., 18. og 19. september í tengslum við sýninguna á eftirgerð Kvæðabókar úr Vigur í Ísafjarðardjúpi.

Dagana 11. til 14. nóvember voru fimm skólar í Borgarfirði og uppsveitum heimsóttir (Laugargerðisskóli, Grunnskólinn á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum, Varmalandi og í Borgarnesi) auk Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit.

Veglegir styrkir, sem Landsbanki Íslands og Landsvirkjun veittu sérverkefninu 'Heimsóknir í grunnskóla á landsbyggðinni í tengslum við sýningar á sex eftirgerðum handrita á jafn mörgum stöðum á landinu' í árslok 2012, hafa gert þessar landsbyggðaheimsóknir mögulegar.

 

Nemendur í Grundaskóla.
Grunnskólanemar á Akranesi á handritakynningu Svanhildar Maríu Gunnarsdóttur safnkennara á Árnastofnun. Bókasafn Akraness, 11.–18. mars 2014.
Grunnskólanemar á Akranesi á handritakynningu Svanhildar Maríu Gunnarsdóttur safnkennara á Árnastofnun. Bókasafn Akraness, 11.–18. mars 2014.
Komdu og skoðaðu í kistuna hennar Svanhildar Maríu Gunnarsdóttur safnkennara á Árnastofnun.
Rósa Þorsteinsdóttir, þjóðfræðingur á Árnastofnun, flutti erindi á Bókasafni Akraness um Staðarhólsbók rímna 1. febrúar 2014.
Rósa Þorsteinsdóttir, þjóðfræðingur á Árnastofnun, flutti erindi á Bókasafni Akraness um Staðarhólsbók rímna 1. febrúar 2014.
Grunnskólanemar á Akranesi á handritakynningu Svanhildar Maríu Gunnarsdóttur safnkennara á Árnastofnun. Bókasafn Akraness, 11.–18. mars 2014.
Grunnskólanemar á Akranesi á handritakynningu Svanhildar Maríu Gunnarsdóttur safnkennara á Árnastofnun. Bókasafn Akraness í mars 2014.