Færeyski hluti ISLEX-orðabókarinnar var opnaður við hátíðlega athöfn í Norðurlandahúsinu í Færeyjum í gær af menntamálaráðherra Færeyja, Birni Kalsø. Opnunin var hluti af viðamikilli dagskrá móðurmálsdags Færeyinga sem haldinn var hátíðlegur á fæðingardegi málfræðingsins V.U. Hammershaimb í gær, 25. mars.
Halldóra Jónsdóttir, verkefnisstjóri ISLEX og á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hélt erindi um tilurð og sögu orðabókarsamstarfsins sem hún nefndi ISLEX – et vigtigt bidrag til det nordiske sprogsamarbejde. Af hálfu Fróðskaparseturs Færeyja héldu þeir Jógvan í Lon Jacobsen og Zakaris S. Hansen, verkefnisstjórar færeyska hluta ISLEX, erindi sem þeir nefndu Nýbrot í føroyskari orðabókagerð.