Skip to main content

Fréttir

Evrópsk samkeppni um MA-ritgerðir á sviði tungumála

Merki samtakanna European Federation of National Institutions for Language.
EFNIL

Samtökin EFNIL (European Federation of National Institutions for Language) standa árlega að evrópskri samkeppni þar sem höfundar MA-ritgerða á sviði tungumála geta keppt um peningaverðlaun.

Möguleika á verðlaunum sem verða afhent haustið 2026 eiga þær ritgerðir sem lokið er á árinu 2025 og háskólar hafa tekið gildar og gefið einkunn fyrir árið 2025 og fram til 15. janúar 2026. Umsóknarfrestur er til 15. janúar 2026. 

Nánari upplýsingar um form og frágang umsóknar, hvert hún skuli send o.s.frv. er að finna á síðunni: EFNIL’s Master’s Thesis Award - EFNIL – European Federation of National Institutions for Language

Ritgerðirnar geta m.a. verið innan efnissviðanna:

  • málnotkun í margmála aðstæðum
  • máltækni og margmála umhverfi
  • markmið og áhrif málstefnu
  • samanburðarrannsóknir á málstefnu
  • málanám í tvítyngissamhengi
  • aðferðir í tungumálakennslu
  • þýðingar og túlkun. 

Ritgerðirnar geta snúist um hvaða tungumál sem er innan Evrópu, eitt eða fleiri. Ritgerðirnar mega vera skrifaðar á opinberu máli þeirra landa sem eiga aðild að EFNIL og íslenska er þar á meðal (ásamt ensku, frönsku, þýsku, dönsku o.m.fl.).    

Miðað er við að veita allt að þrenn verðlaun. Veittar eru 1.500 evrur fyrir hverja verðlaunaritgerð, auk boðs um að halda fyrirlestur á árlegri ráðstefnu EFNIL og að fá birta grein, í ráðstefnuriti, um efni rannsóknarinnar.

Nánar um keppnina

Þetta er í sjöunda sinn sem keppnin er haldin. Verðlaunin 2025, fyrir ritgerðir ársins 2024, voru veitt í Vín í október sl.

Verðlaunahafarnir voru:

  • Aliki Vasiliki Tzoutza (University College Cork, leiðbeinandi Seána Ryan), heiti ritgerðar: The case of Gender Neutral Language in bilingual speakers of Greek and English.
  • Olve Godø Sæther (Universitetet i Agder, leiðbeinandi Marita Kristiansen), heiti ritgerðar: Engelsk tryggleik eller samfunnsbærende norsk. Ei tilstandsanalyse av det parallellspråklege tilhøvet til sjøs, og sjøfolk sine haldningar til eige fagspråk.
  • Jillian Bainbridge (Åbo Akademi, leiðbeinandi Martin Gill), heiti ritgerðar: Renaming Bannau Brycheiniog: A Critical Discourse Analysis of Comments Below-the-Line at Two British Newspapers.