Skip to main content

Fréttir

Eiríkur Rögnvaldsson hlýtur verðlaun fyrir árangur í þágu máltækni

Tveir menn, annar með lítinn pakka og hinn með skjal í ramma.
Eiríkur Rögnvaldsson tekur við verðlaununum.
Quirijn Backx

Eiríkur Rögnvaldsson hlaut nýverið Steven Krauwer-verðlaunin sem veitt eru árlega í gegnum evrópska rannsóknarinnviðaverkefnið CLARIN. Eiríkur hlaut verðlaunin fyrir að hafa unnið markvisst að því síðustu tvo áratugi að stuðla að framgangi máltækni á Íslandi og gera íslenska tungu gjaldgenga í stafrænum heimi. Þá hefur Eiríkur átt stóran þátt í að festa þátttöku Íslands í sessi í norrænum og evrópskum verkefnum á sviði máltækni.

Eiríkur gegndi mikilvægu hlutverki þegar fyrsta máltækniáætlunin var sett á laggirnar á árunum 2000-2004. Hann kom að mörgum máltækniverkefnum á því tímabili, svo sem gerð íslensks málfræðimarkara og þróun talgreinis og talgervils fyrir íslensku. Eftir að fyrstu máltækniáætluninni lauk hélt Eiríkur áfram að beita sér fyrir framgangi íslenskrar tungu og lagði sérstaka áherslu á mikilvægi máltækni fyrir framtíð tungumálsins. Árið 2014 fékk hópur undir stjórn Eiríks styrk til setja saman íslenska risamálheild en gögn Risamálheildarinnar hafa undanfarin ár verið undirstaða margvíslegra máltækniverkefna og málvísindarannsókna. Sama ár tók Eiríkur þátt í að stofna Almannaróm, miðstöð um máltækni, sem annast opinbera máltækniáætlun fyrir íslensku.

Í nóvember 2018 varð Eiríkur fyrsti landsfulltrúi CLARIN á Íslandi en CLARIN-miðstöðin hefur frá upphafi haft aðstöðu á Árnastofnun. Því starfi gegndi hann þar til hann lét af störfum í október 2021.

Nánar má lesa um verðlaunin og rökstuðning dómnefndar á heimasíðu CLARIN.