Skip to main content

Fréttir

Eddukvæðin á úkraínsku

Guðrún Nordal og Marina Voinova halda saman á opinni bók. Bókahillur í bakgrunni.
Guðrún Nordal og Marina Voinova
SSJ

Marina Voinova, dósent í eðlisfræði við Chalmers-tækniháskólann í Gautaborg, gaf bókasafni Árnastofnunar úkraínsku þýðingu sína á eddukvæðunum við hátíðlega athöfn á stofnuninni mánudaginn 27. mars sl. Guðrún Nordal forstöðumaður tók við bindunum tveimur sem komu út í Karkív í Úkraínu skömmu fyrir jólin 2021 og var forðað úr ófriðinum hingað til Íslands. Marina hefur sinnt námi í forníslensku og norrænum fræðum við Gautaborgarháskóla, meðfram öðrum störfum, í liðlega fimmtán ár. Í Gautaborg hefur hún sótt leshring í fornbókmenntum og notið íslenskukennslu Kristins Jóhannessonar. Þýðinguna vann hún í samvinnu við Lars Lönnroth þar í borg en hann gaf eddukvæðin út í nýrri sænskri þýðingu árið 2016. Marina hlaut sérstaka viðurkenningu Konunglegu Gústafs Adolfs-akademíunnar í Uppsölum fyrir þýðinguna sem hún fylgir úr hlaði með inngangi og skýringum og auðgar ríkulega með myndum af fornum sænskum rúna- og myndsteinum með hetju- og goðsagnaefni. Marina hlaut styrk Snorra Sturlusonar til að dvelja við rannsóknir hér á landi en hún vinnur nú að þýðingu á Snorra-Eddu.