Hönnunarverðlaun Íslands 2023 voru afhent 9. nóvember. Edda hlaut verðlaunin Staður ársins 2023 en þrjár tilnefningar voru í þeim flokki. Hornsteinar arkitektar teiknuðu húsið.
Í rökstuðningi segir:
„Edda, nýtt hús íslenskunnar, er einkennandi og áhrifamikil bygging. Vandað er til verka af fagmennsku, listfengi og hugað að hverju smáatriði að innan sem utan. Sporöskjulaga formið og einstök áferð hið ytra gefur til kynna dýrmætt innihald. Byggingin stendur í grunnri spegiltjörn og að utan er hún klædd koparhjúp með stílfærðum afritum texta úr handritum, sem í senn skreytir veggina og vekur forvitni um það sem býr innan þeirra. Edda er bjart og opið hús þar sem fallegir inngarðar gefa innri rýmum andrúm og birtu.
Edda skapar alveg nýja umgjörð um íslenskan þjóðararf, byggingin myndar sterkt kennileiti sem fellur vel að umhverfi. Vinnuumhverfi innanhúss er vel útfært, bjart, vistvænt og þjónar fjölþættri starfsemi. Hornsteinum arkitektum hefur tekist að skapa einkennandi og áhrifamikla byggingu sem hæfir viðfangsefninu í formi og haganleik.
Edda er lykilbygging sem geymir handrit Íslendinga, merkustu menningarverðmæti þjóðarinnar. Í húsinu er starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands sameinuð ásamt því að varðveisla og aðgengi almennings að íslenskum menningarverðmætum er tryggð til langrar framtíðar.“