Á fyrsta degi opinberrar heimsóknar Friðriks krónprins Danmerkur og Mary krónprinsessu skoðuðu þau Handritin - sýningu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Þjóðmenningarhúsinu, ásamt gestgjöfum sínum forseta Íslands Ólafi Ragnari Grímssyni og frú Dorrit Moussaieff. Dr. Vésteinn Ólason forstöðumaður stofnunarinnar gekk með gestunum um sýninguna og kynnti þeim efni hennar. Guðrún Garðarsdóttir settur forstöðumaður Þjóðmenningarhússins tók á móti gestunum og sagði þeim frá sögu hússins sem nú spannar heila öld. Hin opinbera heimsókn varir til 8. maí og heimsækja krónprinshjónin ýmsa staði sem forfeður prinsins heimsóttu á liðinni öld en Þjóðmenningarhúsið, áður Landsbókasafnið, er einn þeirra.
Á myndinni virða Friðrik og Mary fyrir sér ljósmynd sem tekin var í lestrarsal Landsbókasafnins árið 1933 af þáverandi krónprinsi, sem síðar varð Friðrik IX danakonungur. Á milli þeirra stendur Vésteinn Ólason forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.