Skip to main content

Fréttir

Danadrottning viðstödd hátíðarhöld á afmælisári Árna Magnússonar

Margrét Danadrottning viðstödd hátíðarhöld á afmælisári Árna Magnússonar.

 

Margrét Þórhildur II Danadrottning er væntanleg til Íslands og verður hér í opinberri heimsókn dagana 12.–14. nóvember næstkomandi í tilefni af 350 ára afmæli prófessorsins og handritasafnarans Árna Magnússonar en hann var fæddur 13. nóvember árið 1663.

Drottningin mun taka þátt í sérstakri hátíðardagskrá sem fram fer í Þjóðleikhúsinu að kvöldi afmælisdagsins auk þess að vera viðstödd opnun sýningar á Íslensku teiknibókinni í Gerðarsafni fyrr um daginn og hlýða á afmælisfyrirlestur Annette Lassen um Árna Magnússon og handritaarfinn í Hátíðarsal Háskóla Íslands; Sagaer i samtiden: Árni Magnússons storslåede arv.

Árnastofnun hefur staðið fyrir ýmsum viðburðum á afmælisárinu og minnst ævistarfs Árna Magnússonar, meðal annars með verkefninu „Handritin alla leið heim“ sem felst í sýningum á sex stöðum á landinu þar sem sýndar eru vandaðar eftirgerðir handrita sem tengjast viðkomandi landsvæði, en Árni fékk handritin hvaðanæva að af landinu. Enn fremur var haldin alþjóðleg ráðstefna um handrit „Heimur handritanna“ í Reykjavík 10. – 12. október síðastliðinn og Handritakort Íslands gefið út.

Hápunktur dagskrárinnar er á afmælisdaginn sjálfan þar sem hátíðardagskrá fer fram, meðal annars með þátttöku Margrétar Danadrottningar eins og fyrr segir.

Sjá nánar um dagskrána á afmælisárinu