Skip to main content

Fréttir

Dagur íslenskrar tungu

 

Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður nú fagnað í sautjánda sinn. Í skólum landsins og á vegum margra annarra stofnana og samtaka verður dagsins minnst með einhverju móti.

Á vef dags íslenskrar tungu er að finna upplýsingar um hluta af því sem fram fer undir merkjum dagsins. Á vefnum er einnig vísað á ýmsa sérvefi um Jónas Hallgrímsson, þar er hugmyndabanki kennara og yfirlit um þá sem hlotið hafa hin árlegu Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og aðrar viðurkenningar á degi íslenskrar tungu. Þeir sem vilja kynna viðburði sína á vef dags íslenskrar tungu eru hvattir til að senda upplýsingar á netfangið rosasve@hi.is.

Vakin er athygli á þeirri nýjung að dagur íslenskrar tungu er á samfélagsmiðlinum Facebook.

Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Má þar nefna fjölmiðla, skóla, stofnanir og félög. Menntamálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Dagur íslenskrar tungu hefur síðan verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.