Skip to main content

Fréttir

Dagur íslenska táknmálsins - fréttatilkynning

Katrín Jakobsdóttir fyrrum mennta- og menningarmálaráðherra myndar táknið menning.

 

Degi íslenska táknmálsins verður fagnað í annað sinn 11. febrúar 2014. Málnefnd um íslenskt táknmál vill vekja athygli fjölmiðla á þessum degi og stöðu íslensks táknmáls, eina hefðbundna minnihlutamálinu á Íslandi.

Eftirfarandi viðburðir verða í tilefni dagsins en auk þess hefur mennta- og menningarmálaráðherra sent bréf í alla skóla landsins þar sem kennarar eru hvattir til að nýta daginn til að kynna íslenskt táknmál fyrir skólabörnum, það má því vænta þess að íslenska táknmálið verði sýnilegt víða í þjóðfélaginu þennan dag.

Málþing Málnefndar um íslenskt táknmál og Rannsóknastofu í táknmálsfræðum:

Málþingið verður haldið þriðjudaginn 11. febrúar í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands kl. 15-18Þingið ber heitið Tveir heimar mætast og fjallar um hvaða ávinning má sjá af því að til er íslenskt táknmálssamfélag með döff menningu og þeirri þekkingu sem í henni felst.

Dagskrá málþingsins er fjölbreytt. Aðalerindi verður flutt af dr. Dirksen Bauman, prófessor við Gallaudet háskóla í Washington. Erindið verður spilað á málþinginu en það er flutt á amerísku táknmáli og ber heitið Deaf gain and Hearing Loss: The Benefits of Sign Language to Humanity (Döff gróði og heyrendatap/heyrnartap: Ávinningur mannkynsins af táknmálum). Dr. Bauman fjallar um ávinning mannkynsins af táknmálum og menningu döff fólks. Ávinningurinn er greindur á sviði sköpunar, menningar og vitsmuna og er skipt í ávinning samfélaga heimsins og ávinning döff fólks sjálfs. Táknmál heimsins hafa það fram yfir raddmál að geta tjáð veruleikann í þrívídd. Þetta hefur áhrif á taugabrautirnar í heilanum og bein áhrif á þróun hugsunarinnar. Sjón döff fólks er skarpari og sjónræn skynjun þess er hraðari og nákvæmari. Heyrandi fólk getur grætt á því að læra um hvernig heili döff fólks vinnur. Hann tekur spennandi dæmi um skapandi framlag döff fólks til heimsins á sviði arkitektúrs, myndlistar, sagna, bókmennta, kvikmynda o.s.frv. Hann færir jafnfram rök fyrir því hvernig það að tala táknmál getur raunverulega fært okkur betri heim. Þá fjallar hann um hvað döff börn geta fært samfélaginu ef þau fá að alast upp sem döff en ekki litið á þau sem börn með heyrnartap – þ.e. börn sem vantar eitthvað í stað þess að vera börn sem færa okkur eitthvað mikið og eitthvað einstakt.

Jóhannes Gísli Jónson, lektor í íslensku og málvísindum við Háskóla Íslands, mun flytja erindi um ávinning af táknmálsrannsóknum fyrir málvísindin en auk þessa verða flutt stutt erindi og skemmtiatriði sem vísa til lífsreynslu þeirra sem búa í báðum heimum.

Dagskrá málþingsins má finna á www.arnastofnun.iswww.shh.is og á www.hi.is.

Táknmálskennsla í Kringlunni:

Annað árið í röð mun Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra standa fyrir táknmálskennslu í Kringlunni. Kennslan fer fram laugardaginn 8. febrúar kl. 14-15:30 á 2. hæð hjá Eymundsson.

SignWiki:

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra starfrækir þekkingarbrunninn SignWiki um íslenskt táknmál. Inni á http://signwiki.is má finna ýmiss konar efni, m.a. vinsæl tákn, kennsluefni, orðabók, fræðslu- og skemmtiefni sérstaklega unnið í tilefni dagsins (undir heitinu Dagur ÍTM) og margt fleira fróðlegt og áhugavert efni um íslenska táknmálið. Þetta efni geta skólar og aðrir nýtt sér í tengslum við dag íslenska táknmálsins 11. febrúar. Þá hefur Samskiptamiðstöð útbúið kennsluefni, sem sýnir þróun íslensks táknmáls og gömul íslensk tákn, handa táknmálstalandi grunnskólabörnum. Samskiptamiðstöð mun kynna SignWiki í kaffihléi á fyrrnefndu málþingi.

Táknmálskennsla í Hlíðaskóla og leikskólanum Sólborg:

Þann 11. febrúar munu táknmálskennarar Samskiptamiðstöðvar heimsækja leikskólann Sólborg og vinna með íslenskt táknmál með sérstakri áherslu á tjáningu tilfinninga. Einnig verður Hlíðaskóli heimsóttur þar sem aðaláhersla verður á að kynna fyrir nemendum þróun íslenska táknmálsins með því að skoða gömul íslensk tákn sem sjaldan eru notuð og bera saman við ný tákn.

Starfsfólk táknmálssviðs Hlíðaskóla mun standa fyrir ýmsum viðburðum fyrir starfsfólk og nemendur skólans í tilefni dagsins, s.s. táknmálssöng yngstu nemendanna og myndbandasýningum.

Í leikskólanum Sólborg í Reykjavík verður haldið upp á daginn með ýmsum hætti með börnum, foreldrum og starfsfólki, s.s. með ljóðaflutningi barna og starfsfólks og sögustund á íslensku táknmáli. Nánari dagskrá verður á heimasíðu leikskólans www.solborg.is

Félag heyrnarlausra:

Félag heyrnarlausra í samvinnu við Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra býður upp á fyrirlestur Janne Boye Niemelä um lestur og ritun döff barna þann 11. febrúar, kl. 19 Fyrirlesturinn er öllum opinn en er einkum beint til foreldra og kennara heyrnarlausra og heyrnarskertra barna og barna með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og heyrnarlausra foreldra heyrandi barna. Nánari upplýsingar á www.deaf.is. Dagur íslenska táknmálsins er jafnframt afmælisdagur Félags heyrnarlausra og verður afmælisdagskrá í félaginu laugardaginn 15. febrúar, hana má nálgast á www.deaf.is.

Táknsmiðjan:

Íslandsbanki og Flugfélag Íslands hafa í samstarfi við Táknsmiðjuna ehf. útbúið táknmálsviðmót fyrir heimasíður sínar. Táknmálsviðmótin verða gerð aðgengileg þann 11. febrúar í tilefni að degi íslenska táknmálsins. Táknsmiðjan ehf. mun auk þess kynna SpreadtheSign.com í kaffihléi á fyrrnefndu málþingi

Allar fyrirspurnir varðandi daginn má senda á netfangið malnefnd@mit.is