Skip to main content

Fréttir

Carol J. Clover sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands

Háskóli Íslands.

 

Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands sæmdi prófessor Carol J. Clover heiðursdoktorsnafnbót við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 2. október.

Carol J. Clover er professor emerita við University of California, Berkeley. Hún hefur komið víða við í rannsóknum sínum og ritað um íslenskar miðaldabókmenntir, kynjafræði og kvikmyndir. Meðal helstu verka hennar í miðaldafræðum eru bækurnar Old Norse-Icelandic Literature: A Critical Guide (1985) sem hún ritstýrði ásamt John Lindow og The Medieval Saga (1982). Síðarnefnda bókin er meðal áhrifamestu verka um íslenskar miðaldabókmenntir. Í nýjustu rannsóknum sínum hefur Carol J. Clover fengist við þátt laga og réttarfars í tilurð Íslendingasagna.

Carol J. Clover.

Carol J. Clover hefur einnig haft umtalsverð áhrif á kvikmynda- og kynjafræði. Bók hennar Men, Women and Chain Saws: Gender in the Modern Horror Film (1992) var ekki aðeins fyrsta fræðiritið til að taka hryllingsmyndir alvarlega sem viðfangsefni heldur var þar endurtúlkað samband áhorfenda og fyrirmynda þeirra á hvíta tjaldinu.

Öll helstu verk Carol J. Clover hafa valdið straumhvörfum á sínu sviði. Framlag hennar til rannsókna á íslenskum miðaldabókmenntum er með því merkasta innan greinarinnar. Hún hefur komið nokkrum sinnum til Íslands, haldið fjölsótta fyrirlestra og haft góð tengsl við íslenska fræðimenn.

Athöfnin hófst með kynningu Úlfars Bragasonar á Carol J. Clover og flutti hún svo fyrirlestur um feril sinn og fræði. Sveinn Yngvi Egilsson, forseti Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands, stýrði athöfninni.