Skip to main content

Fréttir

Bókmennta- og heilsuátakið Laxness119: Glæsileg menningardagskrá sem lokahnykkur

Íslenskunemendur og -kennarar um allan heim tóku nýlega þátt í bókmennta- og heilsuátakinu Laxness119. Milli dánardags (8. febrúar) og fæðingardags (23. apríl) skáldsins Halldórs Laxness áttu þátttakendur að velja sér það form hreyfingar sem þeim þætti hentugast. Hlaupa mátti, hjóla eða ganga 119 km en einnig var hægt að synda 119 m og skauta eða gera 119 æfingar af einhverju tagi (á viku eða degi hverjum). Hugmyndin var sú að talan 119 kæmi fram í persónulegu markmiði hvers og eins en á þessu ári eru 119 ár liðin frá fæðingu Halldórs Kiljans Laxness. Á sama tíma átti að lesa skáldsögu að eigin vali eftir nóbelskáldið eða hlusta á upplestur tiltekins verks. Þetta bókmennta- og heilsuátak er frábært dæmi um aukið samstarf milli kennara og nemenda í íslensku við háskóla um allan heim á tímum faraldurs.

Hugmyndin að verkefninu kviknaði í fjarkennslutíma í Vín í lok haustmisseris þegar allir voru orðnir leiðir á eilífu útgöngubanni og streymiþjónustuglápi. Þar sem í flestum löndum hefur verið leyft að hreyfa sig úti til heilsubótar var ákveðið að gera eitthvað fyrir kroppinn um leið og íslenskunám var stundað – og niðurstaðan varð lestur eða hlustun á verkum eftir Laxness. Skáldið sjálft var fyrirmyndin að þessu átaki, en Laxness á að hafa gengið í landi Gljúfrasteins með hundinn sinn á hverjum degi í hvaða veðri sem var, hlustað á fuglasöng, notið stundarinnar og fengið innblástur frá náttúrunni.

Á fæðingardegi Halldórs Laxness 23. apríl nk. lýkur átakinu síðan með glæsibrag. Í beinni rafrænni útsendingu frá Gljúfrasteini, húsi skáldsins, fá þátttakendur að virða húsakynnin fyrir sér og mun Halldór Guðmundsson ævisagnaritari þjóðskáldsins fjalla um helstu atriði í lífi og starfi þess.

Þessi dagskrá mun vekja athygli á verkum Halldórs og hvetur erlenda nemendur í íslensku til þess að kynna sér skáldsögurnar sem liggja fyrir í allmörgum þýðingum, en frumtextarnir þykja afar erfiðir aflestrar.

Um 110 manns skráðu sig til leiks á síðum átaksins á Facebook og Instagram og hafa reglulega deilt myndum merktum #Laxness119. Skemmtilegt var að sjá á hverju þátttakendur spreyttu sig í átakinu. Sumir hafa sippað, klifrað, gengið, synt, skokkað, hjólað eða dansað en einnig ýmislegt annað. Einn nemendanna í Sviss bakaði t.a.m. 119 kanilsnúða og seldi til að safna fé í góðgerðaskyni. Austurrískur nemandi gekk 1119 metra á viku. Kona í Norður-Ameríku gekk á villtu svæði, nálægt þeim slóðum þar sem íslenskir landnemar námu land á 19. öld. Þátttakendur komu frá þýskumælandi löndum, Norðurlöndum, Kanada og Norður-Ameríku, nokkrir frá Frakklandi, en einnig frá Íslandi. Þátttakan hefur endurspeglað áhuga fólks á íslenskukennslu og endurvakið lestur skáldverka eftir Halldór Laxness í meira en 20 löndum um allan heim.