Dr. Margaret Cormack færði Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum dýrmæta gjöf þann 26. janúar, bókina Super librum Sapientiae sem eru útleggingar á Speki Salómons eftir Robert Holkot (d. 1349). Bókin var prentuð árið 1489 í Basel af prentaranum Johanni Amerbach, og Johanni Petri de Langendorff.
Um mikið fágæti er að ræða. Það er skemmtileg tilviljun að ein bóka Landsbókasafns er einmitt komin úr prentsmiðju Amerbachs í Basel. Sú bók er Expositio in psalterium, ritskýring Saltarans eftir Cassiodorus, prentuð 1491. Johann Amerbach var þekktur prentari og úr prentsmiðju hans eru varðveittar um 75 bækur, sem eru í metum fyrir vandaðan texta sakir náinnar samvinnu Amerbachs við ýmsa lærdómsmenn eins og Ólafur Pálmason segir frá í grein um vögguprent í Landsbókasafni í Árbók safnsins árið 1987.
Stofnunin þakkar Margaret Cormack einstakt örlæti og þann vinarhug sem hún sýnir með gjöfinni. Margaret hefur um árabil dvalið við fræðistörf á Árnastofnun um lengri eða skemmri tíma og hefur tengst stofnuninni og landinu sterkum böndum. Veturinn 2011-12 dvelur hún einmitt við rannsóknir á stofnuninni.