Skip to main content

Fréttir

Blaðagrein eftir Guðrúnu Nordal

Orð um orð.

Af umræðu sem birst hefur á vef- og prentmiðlum undanfarna daga má skilja að öll gögn sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM) býr yfir séu lokuð almenningi. Þetta er ekki rétt. Yfirlýst stefna SÁM er að aðgangur að gögnum stofnunarinnar sé almennt opin. Undanfarin ár hefur aðgengi að ýmsum gögnum stofnunarinnar verið bætt og gagnapökkum frá stofnuninni dreift, m.a. á Málföng.is, með eins opnum notkunarleyfum og kostur er.

Beygingarlýsing íslensks nútímamáls (BÍN) er sprottin upp úr tungutækniátaki stjórnvalda eftir aldamótin. Í því átaki var meðal annars sett það skilyrði að gögn sem yrðu til í átakinu yrðu öllum aðgengileg, en ekki ókeypis. Stjórnvöld vildu að gögnin stæðu undir viðhaldi með tíð og tíma. Þróun BÍN var haldið áfram á Orðabók Háskólans, síðar SÁM, og árið 2009 var horfið frá fyrri stefnu stjórnvalda og gjaldtöku hætt.

Frá upphafi hafa öll beygingardæmi í BÍN verið öllum opin á vefsíðu stofnunarinnar og að sjálfsögðu er heimilt að setja tengla í þau þar. Frumgögnin er hægt að sækja á vefsíðuna og þau má nota að vild nema til birtingar á beygingardæmum, enda sé uppruna getið. Gögnin hafa verið nýtt á fjölbreytilegan hátt, t.d. í leitarvélum á já.is, Vísindavef Háskólans, Snöru og íslensk-skandinavísku veforðabókinni Islex, í leiðréttingarforritum og við gerð tölvuleikja á borð við Netskrafl o.fl.

Ástæðan fyrir því að birting beygingardæma hefur ekki verið leyfð er sú að BÍN er mállýsing en ekki forskrift. Það þýðir að ýmislegt sem ekki er endilega ,,réttast og best" birtist í BÍN, en þá jafnan með skýringum. Ef nota á BÍN sem grunn að leiðbeiningum eða kennsluefni þarf að taka úrtak úr gögnunum sem sérsniðið er að þeim þörfum. Ef gögnin úr BÍN eru notuð í núverandi mynd gæti nemandi haldið að ,,hendi" sé gott og gilt í öllum föllum og í hvaða samhengi sem er þótt sú notkun sé í raun takmörkuð við merkinguna 'snerting við bolta' í íþróttamáli. Í BÍN eru líka eðli málsins samkvæmt stafsetningarafbrigði sem ekki eru í samræmi við núgildandi stafsetningarreglur. Almenningur gerir kröfu til þess að efni sem birt er í nafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sé til fyrirmyndar, enda er hlutverk stofnunarinnar ,,að stuðla að aukinni þekkingu á íslenskri tungu ... og veita ráðgjöf og leiðbeiningar um málfarsleg efni á fræðilegum grundvelli" (Lög nr. 40 12. júní 2006). Stofnunin getur ekki stuðlað að villandi framsetningu á gögnum sem verður til þegar beygingarupplýsingar eru slitnar úr samhengi og þess vegna er birting beygingardæma úr BÍN óheimil.

Rætt hefur verið innan stofnunarinnar að búa til úrtak úr BÍN sem m.a. mætti nýta í kennsluefni. Óskandi væri að hægt væri að hrinda því verkefni af sem sem fyrst. Enn fremur má vekja athygli á því að nýlega barst SÁM fjárstyrkur til að stórbæta þjónustu sína við almenning  með uppsetningu nýrrar vefgáttar, Málið.is. Þar verða öll gagnasöfn stofnunarinnar um íslenskt mál  og málnotkun aðgengileg á einum stað og leitarbær í einföldu viðmóti. Þar verður hægt að nálgast gríðarlegt magn upplýsinga. Stefnt er að opnun vefgáttarinnar síðar á þessu ári.

 

Hér er tengill á greinina sem birtist í Fréttablaðinu 16. mars 2016.