Ársfundur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum var haldinn árla mánudaginn 14. maí 2018. Dagskráin var þéttskipuð og flutti bæði fólk innan og utan stofnunar stutt erindi.
Þorsteinn Pálsson, formaður stjórnar stofnunarinnar, setti fundinn með kraftmiklu ávarpi þar sem 100 ára gamalt símskeyti og skopsagan um húsbyggingu eina á Melunum komu við sögu.
Mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði einnig fundinn og lagði áherslu á mikilvægi íslenskukennslu fyrir börn og unglinga af erlendum uppruna en Úlfar Bragason sagði einmitt frá því á fundinum að stefnt væri að því að útbúa sérstaka gerð Icelandic Online-kennsluforritsins fyrir börn og unglinga. Erindin fjölluðu um landvinninga íslenskunnar í útlöndum, bráðnauðsynlega viðgerð Flateyjarbókar, ný þróunarverkefni innan stofnunarinnar og endurreisn gagnagrunna um íslensku sem byggja á gömlum vélbúnaði og þurfa að ganga í endurnýjun til að verða að gagni.
Í lok fundar minnti forstöðumaður á líkindi á milli garðræktar og málræktar og í þeim bjartsýna anda voru gestir og fyrirlesarar sendir út í daginn með sjálfsáð tré úr grunni Húss íslenskunnar.