8. júní s.l. var haldið á Breiðdalssetri á Breiðdalsvík málþing um austfirskt mál og málnotkun með hliðsjón af rannsóknum Stefáns Einarssonar. Vésteinn Ólason, f.v. forstöðumaður Árnastofnunar og fulltrúi hennar í stjórn Breiðdalsseturs, undirbjó málþingið og stjórnaði því. Erindi fluttu Aðalsteinn Hákonarson, doktorsnemi við Háskóla Íslands, og nefndi erindi sitt: „Hvernig vann hljóðfræðingurinn Stefán Einarsson?“. Svavar Sigmundsson talaði um „Austfirsk örnefni“ og Gunnlaugur Ingólfsson um „Áttatáknanir í Múlaþingi“. Eftir hlé flutti Kristján Árnason erindi „Um austfirsku“ og Margrét Jónsdóttir spurði „Er þetta austfirska?“. Guðrún Kvaran talaði síðan um „Gamlar og nýjar athuganir á orðaforða á austanverðu landinu,“ en síðasta erindið flutti Ragnar Ingi Aðalsteinsson: „Að yrkja á austfirsku“. Góðar umræður urðu um öll erindin og lögðu heimamenn ýmislegt til málanna. Málþingið sóttu um 30 manns úr ýmsum byggðum Austurlands.
Málþingið var haldið af Breiðdalssetri í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Það var styrkt af Háskólasjóði auk þeirra stofnana sem að því stóðu.
Breiðdalssetur er sjálfseignarstofnun, menningar- og fræðasetur í Gamla kaupfélaginu á Breiðdalssvík. Nánari fróðleik um setrið er að fá á breiddalssetur.is. Innan skamms munu erindin sem flutt voru á málþinginu verða birt á heimasíðu Breiðdalsseturs.