Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum auglýsir styrki til háskólanema vegna lokaverkefna sem byggjast að verulegu leyti á rannsóknum á frumgögnum stofnunarinnar, hvort sem er á orða- og málfarssöfnunum, örnefnasafninu, handritasafninu eða þjóðfræðasafninu. Í boði er einn styrkur að fjárhæð 200.000 krónur vegna BA / BS-ritgerðar og annar að fjárhæð 400.000 krónur vegna MA / MS-ritgerðar.
Umsóknir ásamt stuttri greinargerð um umsækjandann og verkefnið (1−2 bls.) þurfa að berast til stofnunarinnar á rafrænu formi á umsoknir@arnastofnun.is fyrir 15. febrúar 2022. Öllum umsóknum verður svarað fyrir 15. mars 2022. Styrkirnir verða greiddir út í tvennu lagi, fyrri helmingurinn þegar verk hefur verið samþykkt af leiðbeinanda og er komið af stað og afgangurinn við verklok. Hægt er að sækja um vegna verkefna sem áætlað er að ljúki á næsta háskólaári (2022−2023).
Athygli er vakin á að lokaverkefni við alla háskóla koma til greina.