Ásta Svavarsdóttir rannsóknardósent hefur tekið við sem stofustjóri orðfræðisviðs á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Ásta lauk cand.mag.-prófi í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands árið 1987. Hún var stundakennari við heimspekideild Háskóla Íslands árin 1981–1989, lektor í íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskólann 1989–1991, ritstjóri og fræðimaður við Orðabók Háskólans frá 1990 og lektor árið 2006 við hina nýju Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þegar Orðabókin var sameinuð fjórum öðrum stofnunum á sviði íslenskra fræða. Ásta tók við sem stofustjóri af Guðrúnu Kvaran sem hefur látið af störfum við stofnunina.
Guðrún Kvaran starfaði við Orðabók Háskólans um áratugaskeið sem sérfræðingur, síðar forstöðumaður hennar og stofustjóri orðfræðisviðs á nýju stofnuninni 2006 og prófessor við hugvísindasvið Háskóla Íslands. Guðrún hefur verið formaður Íslenskrar málnefndar undanfarin ár. Í tilefni sjötugsafmælis Guðrúnar sumarið 2013 gaf stofnunin út bókina Glíman við orðin.