Árni Magnússon gekk að eiga Mette Jensdatter Fischer 16. maí árið 1709. Árni var þá 45 ára en kona hans var 19 árum eldri en hann. Mette var dönsk ekkja eftir konunglegan söðlasmið, Hans Wichmand að nafni, sem látist hafði 1707 og höfðu þau hjón búið við torgið hjá konungshöllinni. Sagt er að Árni hafi þekkt þau hjón og á stundum litið inn til þeirra á leið sinni í skjalasafnið og drukkið með þeim morgunte. Annars er lítið vitað um Mette Magnússon en hún mun hafa lagt með sér töluverðar eignir í bú þeirra hjóna.