Skip to main content

Fréttir

Árni Magnússon (1663–1730)

Árni Magnússon.

 

13. nóvember á þessu nýbyrjaða ári verða 350 ár liðin frá fæðingu Árna Magnússonar. Þeirra tímamóta verður minnst með ýmsu móti en fyrst og fremst verður tækifærið nýtt til þess að minna landsmenn á mikilvægi handritasöfnunar Árna og þau verðmæti sem þjóðin – og heimurinn allur – á í safni hans. Segja má að viðurkenning heimsins hafi fengist árið 2009 þegar handritasafn Árna var tekið upp á varðveisluskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), Minni heimsins. Í tilefni af henni efndi Árnastofnun til erindaraðar í Þjóðmenningarhúsinu undir yfirskriftinni Góssið hans Árna og þau erindi koma út á bók nú í vor. Á afmælisárinu verður viðurkenningu UNESCO fylgt enn frekar eftir, meðal annars með verkefninu Handritin alla leið heim. Með því er ætlunin að draga athygli að því að handritin í safni Árna komu víðs vegar að af landinu; handrit voru skrifuð og lesin um allt land og má segja að hvert hérað geti státað af dýrgripi í Árnasafni. Gerðar verða eftirmyndir af sex handritum og þeim komið fyrir í héruðum í samvinnu við söfn og ábúendur á hverjum stað. Þá er í ráði að útbúa Íslandskort með upplýsingum um merka staði tengda handritum. Í haust verður svo gefin út falleg bók með myndum og umfjöllun um valin handrit úr safni Árna. Hún er unnin í samstarfi Árnastofnananna tveggja og Bókaútgáfunnar Opnu.

Á afmælisárinu verður enn fremur bryddað upp á nýmæli í safnkennslu stofnunarinnar með því að Svanhildur Gunnarsdóttir safnkennari mun heimsækja skóla á landsbyggðinni og gefa þannig fleiri börnum kost á að kynnast handritaarfinum og söfnunarstarfi Árna. Svanhildur mun njóta fulltingis Soffíu Guðnýjar Guðmundsdóttur en til heimsóknanna hafa þegar fengist styrkir úr samfélagssjóði Landsbankans og frá Landsvirkjun.

Í október er áformað að efna til alþjóðlegrar ráðstefnu um handritafræði þar sem bæði verða fyrirlestrar um sértæk efni og erindi sem ætlað er að höfða til almennings. Dagskrá afmælisársins nær svo hápunkti á afmælisdaginn sjálfan, 13. nóvember, með afmælisdagskrá í Þjóðleikhúsinu. Nánari upplýsingar um einstaka viðburði munu fást á heimasíðu stofnunarinnar og í fréttabréfinu eftir því sem árinu vindur fram.