Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stóð fyrir „opnu húsi" í Edinborgarhúsinu á Ísafirði laugardaginn 26. september síðastliðinn. Forsvarsmenn hússins tóku vel á móti gestum sem fengu fyrirmyndaraðstöðu fyrir verkefni sín.
Margir sóttu viðburðinn í þessu gamalgróna menningarhúsi Ísfirðinga enda var dagskráin fjölbreytt og lífleg. Gestum gafst kostur á að búa til eigið skinnhandrit og kynnast um leið þeim aðferðum sem skrifarar beittu á miðöldum. Icelandic Online, vefur fyrir útlendinga til að læra íslensku, var kynntur og gestir gátu virt fyrir sér sýninguna Óravíddir og kynnst íslenskum orðaforða í nýju ljósi.
Viðburðurinn var lokahnykkur á ferð Árnastofnunar um Vestfirði. Jakob Birgisson og Snorri Másson, fræðarar verkefnisins Handritin til barnanna, hafa heimsótt ellefu grunnskóla á Vestfjörðum undanfarið og frætt börn á miðstigi um handritin og handritasafnarann Árna Magnússon.
Árnastofnun mun halda áfram að fræða börn í öllum landsfjórðungum og heimsækja skóla eins og kostur er. Næstu viðburðir verða haldnir í október í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, Menningarhúsinu Bergi á Dalvík og Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Hægt er lesa nánar um verkefnið Handritin til barnanna hér.