Þjóðhátíðarsjóður hefur verið lagður niður, en hann var stofnaður í tilefni af 1.100 ára búsetu á Íslandi. Sjóðurinn úthlutaði styrkjum árlega frá 1977 til ársins 2011, eða í 34 ár. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fékk síðustu fjármuni sjóðsins og á að verja þeim til viðgerða á Flateyjarbók.
Árið 2006 var skipulagsskrá sjóðsins breytt þannig að leggja skyldi Þjóðhátíðarsjóð niður og ráðstafa öllu fé sjóðsins til styrkveitinga fram til ársins 2011 í samræmi við tilgang hans, sbr. þingsályktun 5/133. Í ályktuninni var ennfremur kveðið á um að verði eitthvað eftir af fjármunum í sjóðnum þegar árlegum úthlutunum styrkja sjóðsins lýkur skuli stjórn sjóðsins, án þess að auglýsa eftir umsóknum, ráðstafa slíku fé í samræmi við tilgang sjóðsins.
Í samræmi við nefnda skipulagsbreytingu ákvað stjórn Þjóðhátíðarsjóðs því í dag að veita Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum styrk að fjárhæð 892.790 kr., sem jafnframt er síðasti styrkur sjóðsins, til viðgerðar á Flateyjarbók.