Skip to main content

Fréttir

Árnastofnun fékk far með Háskólalestinni

Háskólalestin er á ferðinni á vorin og fer vítt og breitt um landið. Megintilgangur lestarinnar er að opna undraveröld vísindanna fyrir skólabörnum og heimamönnum á hverjum áfangastað og kynna um leið fjölbreytta rannsóknarstarfsemi við Háskóla Íslands.

 

Svanhildur María Gunnarsdóttir safnkennari og Eva María Jónsdóttir kynningarstjóri Árnastofnunar slógust í hópinn dagana 12. og 13. maí sl. Áfangastaðurinn var Grunnskólinn í Sandgerði þar sem þær tóku á móti nemendum sem höfðu valið að kynna sér leyndardóma handritanna föstudaginn 12. maí. Laugardaginn 13. maí var svo efnt til vísindaveislu í hátíðarsal skólans. Þar gafst gestum á öllum aldri kostur á að kynnast margbreytilegum fræða- og vísindagreinum, s.s. efnafræði, blaða- og fréttamennsku, stjörnufræði, náttúrufræði, japönsku og jarðfræði að ógleymdum íslenskum fræðum þar sem handritamenning fyrri alda kemur heilmikið við sögu. 

 

Börnin höfðu mikinn áhuga á að fræðast um handritin og leyndardóma þeirra og ekki hvað síst að skrifa með fjöðurstaf og jurtableki á kálfskinn, eins og gert var á miðöldum, en ein stúlkan sat við skriftir í vísindaveislunni frá hádegi til nóns og hafði oft á orði hversu mikla ánægju hún hafði af því að skrifa og teikna með þessum fornfálegu skriffærum.

 

Svanhildur María Gunnarsdóttir útskýrir handritamenningu fyrir gestum í vísindaveislu. Mynd: Björn Gíslason.

 

Börn skrifa á kálfskinn með fjöðurstaf og heimalöguðu jurtableki. Mynd: Björn Gíslason.

 

Endurgerð af Flateyjarbók var til sýnis í vísindaveislunni í Sandgerði Mynd: Björn Gíslason.