Árlegur fundur íslenskukennara sem starfa við erlenda háskóla var haldinn í háskólanum í Basel 4.–7. maí sl. eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldursins. Á fundinum var rætt um íslenskukennslu fyrir erlenda námsmenn og áskoranir sem COVID-19-faraldurinn hefur á kennsluna í dag. Athygli var sérstaklega beint að því mikilvæga starfi kennara sem felst í þjálfun nýrra þýðenda og fræðimanna fyrir komandi kynslóðir sem starfa munu sem fulltrúar Íslands við kynningu á íslenskri tungu og menningu erlendis.
Einnig var lýst yfir ánægju vegna stuðnings sem háskólinn í Basel fékk fyrir íslenskukennslu frá stjórnvöldum fyrir tveimur árum. Án þessa stuðnings myndi kennsla í íslensku máli og menningu þar leggjast niður eftir margra ára farsæla sögu. Starfsmenn og nemendur frá háskólum í Basel og Zürich kynntu starfsemi, rannsóknir og nám í norrænum fræðum við þessa háskóla.
Íslensk stjórnvöld styðja við kennslu í íslensku sem erlendu máli við sextán erlenda háskóla í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur umsjón með kennslunni fyrir hönd stjórnvalda.