Skip to main content

Fréttir

Ályktun Málnefndar um íslenskt táknmál

Þann 7. júní ár hvert ályktar Málnefnd um íslenskt táknmál um stöðu málsins. Ályktun nefndarinnar í ár má lesa hér fyrir neðan en skýrsluna í heild sinni má nálgast á táknmáli með því að smella á myndina hægra megin eða í pdf skjali hér: Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál (141 k).

 

Ályktun nefndarinnar er svohljóðandi:

  • Málnefnd um íslenskt táknmál hvetur skólayfirvöld til þess að taka sig á varðandi afstöðu sína til íslensks táknmáls. Gera þarf stórátak til þess að gefa börnum með skerta heyrn jafnan aðgang að íslensku táknmáli og íslensku eins og lög mæla fyrir um. Með þeirri afstöðu að íslenskt táknmál sé einhvers konar hjálpartæki eða þáttur í velferðarþjónustu er brotið á þeim málnotendum sem ættu að eiga óheftan aðgang að íslensku táknmáli.
  • Málnefnd um íslenskt táknmál leggur áherslu á að þjónustu við málsamfélag íslenska táknmálsins þarf að styrkja og efla verulega. Sérstaklega þarf að standa tryggan vörð um að börn með skerta heyrn geti öðlast virkt tvítyngi íslensks táknmáls og íslensku.
  • Málnefnd um íslenskt táknmál leggur enn fremur áherslu á að þjónusta við málsamfélag íslenska táknmálsins er ekki velferðarþjónusta heldur samþætt vinna við tungumál. Mikilvægt er að halda áfram að byggja upp og styrkja rannsóknir á íslensku táknmáli, kennslu og túlkaþjónustu á milli íslensks táknmáls og íslensku, samþætt og á sama grunni.

Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál í heild sinni (á táknmáli)

Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál í heild sinni (pdf, 141 k)