Skip to main content

Fréttir

Alþjóðlegur sumarskóli í íslenskri tungu og menningu

Alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skipulagði tvo sumarskóla í íslenskri tungu og menningu á þessu sumri. Alls tóku tæplega sextíu nemar þátt í þessum námskeiðum. Nýlega lauk fjögurra vikna norrænu fjarnámskeiði í íslensku sem haldið var á vegum hugvísindasviðs Háskóla Íslands og stofnunarinnar.  Í byrjun júlí hófst svo fjögurra vikna alþjóðlegur sumarskóli í íslenskri tungu og menningu. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stóð fyrir námskeiðinu í samvinnu við hugvísindasvið Háskóla Íslands og annaðist skipulagningu þess. Þetta var í þrítugasta og fjórða skiptið sem slíkur sumarskóli var haldinn. Á þessum erfiðum tímum faraldursins COVID-19 gátu nemendur valið milli fjarnáms og staðnáms í Reykjavík.

Þátttakendur í alþjóðlega sumarskólanum voru tuttugu og átta að þessu sinni, tíu í fjarnámi og átján í námskeiðum í Reykjavík, og komu þeir frá þrettán löndum. Þeim var skipt í tvo hópa í íslenskunáminu eftir kunnáttu en allir höfðu þegar lagt stund á íslensku heima fyrir, annaðhvort hjá íslenskukennurum eða með aðstoð vefnámskeiðsins Icelandic Online. Auk þess að nema íslensku gafst stúdentunum tækifæri til að hlýða á fyrirlestra um náttúru Íslands, sögu Íslendinga, menningu á Íslandi og íslensk stjórnmál, heimsækja menningarstofnanir og skoða sig um á sögustöðum. 

Mikill áhugi er á að læra íslensku víða um lönd. Með ári hverju berast fleiri umsóknir um hvers konar íslenskunám fyrir útlendinga hér á landi.