Mánudaginn 6. júlí hefst fjögurra vikna alþjóðlegt sumarnámskeið í íslensku í Háskóla Íslands. Námskeiðið er ætlað erlendum háskólastúdentum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gengst fyrir námskeiðinu í samvinnu við hugvísindasvið Háskóla Íslands og annast skipulagningu þess. Þetta er í tuttugasta og níunda skiptið sem slíkt námskeið er haldið.
Þátttakendur eru þrjátíu og fimm að þessu sinni og koma frá þrettán löndum, flestir frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Frakklandi. Þeim er skipt í tvo hópa í íslenskunáminu eftir kunnáttu en allir hafa þegar lagt stund á íslensku heima fyrir, annaðhvort hjá íslenskukennurum eða með aðstoð vefnámskeiðsins Icelandic Online I. Auk þess að nema íslensku gefst stúdentunum tækifæri til að hlýða á fyrirlestra um náttúru Íslands, sögu Íslendinga, menningu á Íslandi og íslensk stjórnmál, heimsækja Alþingi og menningarstofnanir og skoða sig um á sögustöðum.
Alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skipuleggur þrjú íslenskunámskeið á þessu sumri. Alls taka rúmlega áttatíu nemar þátt í þessum námskeiðum. Nýlega lauk tveggja vikna íslenskunámskeiði fyrir vestur-íslensk ungmenni sem dveljast hér á landi í sumar á vegum Snorraverkefnisins svonefnda. Hinn 2. júlí lauk fjögurra vikna norrænu sumarnámskeiði í íslensku sem haldið var á vegum hugvísindasviðs Háskóla Íslands og stofnunarinnar. Norræna ráðherranefndin greiðir kostnaðinn af því námskeiði.
Mikill áhugi er á að læra íslensku víða um lönd, ekki síst í Norður-Evrópu og Norður-Ameríku. Með ári hverju berast fleiri umsóknir um hvers konar íslenskunám fyrir útlendinga hér á landi. Nútímaíslenska er einnig kennd við marga erlenda háskóla. Minna má á að nú starfa fimmtán íslenskulektorar erlendis með styrk íslenskra stjórnvalda, þrettán í átta Evrópulöndum, einn í Kanada og einn í Kína. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast umsjón með þessum styrkveitingum.