Skip to main content

Fréttir

Aldarminning Ásgeirs Blöndals Magnússonar

Ásgeir Blöndal Magnússon, höfundur Íslenskrar orðsifjabókar (1989) og starfsmaður Orðabókar Háskólans um áratuga skeið, síðast sem forstöðumaður hennar, hefði orðið 100 ára 2. nóvember næstkomandi. Af því tilefni verður næsta málþing tímaritsins Orðs og tungu helgað minningu Ásgeirs. Það ber yfirskriftina Frá orði til orðs og verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðunnar laugardaginn 7. nóvember. Fyrirlesarar verða átta, þ.á m. tveir erlendir gestir – Arne Torp frá Osló og Bente Holmberg frá Kaupmannahöfn. Dagskrá þingsins verður auglýst nánar síðar.

Einnig er í undirbúningi útgáfa á minningarriti um Ásgeir Blöndal Magnússon með endurútgáfu á öllum helstu greinum hans um málfræði og orðsifjar. Verður það gefið út af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þegar líður á haustið.