Skip to main content

Fréttir

Afmælishaust Stofnunar Árna Magnússonar í máli og myndum

 

SEPTEMBER

1. september – Afmæli sameinaðrar stofnunar í íslenskum fræðum

Þann 1. september fagnaði Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 10 ára afmæli. Þann dag árið 2006 voru sameinaðar 5 stofnanir undir nýju nafni. Í tilefni af þessum tímamótum komu saman í húsakynnum stofnunarinnar að Laugavegi 13 núverandi og fyrrverandi starfsmenn ásamt mökum, vinum og velunnurum auk þeirra sem setið höfðu í stjórn stofnunarinnar frá upphafi. 

 

Emily Lethbridge og Gísli Sigurðsson í afmæli.

 

Gestir í 10 ára afmæli.

 

 

13. september – Opnun snjalltækjaútgáfu Icelandic Online

Byrjendanámskeið í íslensku sem öðru máli – Bjargir (e. survival course) – var opnað fyrir snjalltæki á vefsvæðinu www.icelandiconline.is í Norræna húsinu 13. september. Á sama tíma var fyrsta netnámskeiðið í færeysku opnað á vefsvæðinu www.faroeseonline.fo.

 

Úlfar Bragason flutti erindi við opnunina.

 

Forritarar nýju útgáfunnar fylgjast með kynningunni.

 

Áhugasamir gestir með Icelandic Online í snjalltæjkum.

 

14. september – Sigurðar Nordals fyrirlestur

Á afmælisdegi Sigurðar Nordals, 14. september, flutti Guðmundur Andri Thorsson fyrirlestur í Norræna húsinu sem fylltist af fólki af þessu tilefni. Þar var fjallað um Sveinbjörn Egilsson í víðu samhengi.

 

OKTÓBER

6. október – Íslenskt orðanet opnað og kynnt

Höfundurinn Jón Hilmar Jónsson rannsóknarprófessor og samverkamaður hans, Bjarki Karlsson, greindu fullum sal áhugasamra í Hannesarholti frá þeim möguleikum sem felast í Orðanetinu, en það hefur reynst þeim sem vinna með tungumálið í allri sinni vídd og breidd mjög hjálplegt tól.

 

Jón Hilmar Jónsson, höfundur Íslensks orðanets, og Bjarki Karlsson, samverkamaður hans, að opnun og kynningu afstaðinni.

 

Orðanetið var opnað og kynnt í Hannesarholti 6.10. 2016.

 

 

20.–21. október – Ráðstefna um GKS 1812 4to

Viðey varð miðpunktur heimsins í tvo vætusama daga í haust. Þann 20. október sigldu um 60 manns, hvaðanæva úr heiminum, út í Viðey til að fræðast um eitt merkilegasta miðaldahandrit íslenskt sem hefur að geyma efni af alfræðilegum toga.

 

Guðrún Nordal forstöðumaður og Abdelmalek Bouzari frá Alsír.

 

Gunnar Á. Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson.

 

Kristín Bjarnadóttir ásamt Alfred Hiatt og Christian Etheridge.

 

Jörmundur Ingi, fv. allsherjargoði.

 

NÓVEMBER

13. nóvember – Afmælisdagur og fyrirlestur Árna Magnússonar

Afmælisdagur Árna Magnússonar var á sunnudegi í ár. Var hann haldinn hátíðlegur með opnu húsi í Menningarhúsinu Hofi en þangað mætti stór hluti starfsfólks stofnunarinnar.

Fjöldi gesta lagði leið sína á staðinn og kynnti sér það sem stofnunin hefur að bjóða bæði lærðum og leikum. Heimamenn settu einnig sitt mark á viðburðinn með rímnakveðskap og upplestri.

 

Ýmsir töfrahlutir sem þarf til að búa til bók að hætti miðaldamanna.

 

Ungir og gamlir komu saman í menningarhúsinu Hofi á Akureyri þann 13. 11. 2016.

 

Margrét Eggertsdóttir flutti síðdegis fyrirlestur Árna Magnússonar og fjallaði þar um hin miklu verðmæti sem felast í yngri pappírshandritum, en yfirskrift lestrarins var: Pappírshandrit hækka í verði.

 

Margrét Eggertsdóttir svarar fyrirspurnum í lok lestrar og Svanhildur Óskarsdóttir stýrir dagskránni.

 

16. nóvember – Dagur íslenskrar tungu

Á degi íslenskrar tungu var hátíðardagskrá mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum haldin í Björtuloftum, Hörpu.

Þar opnaði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, vefgáttina málið.is en þar er að finna á einum stað miklar og gagnlegar upplýsingar um íslenskt mál.

Við sama tækifæri fékk skáldið Sigurður Pálsson Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Ræðu hélt Sigurður við þetta tækifæri og má hana lesa hér. Á þessum degi fékk einnig sérstaka viðurkenningu Ævar Þór Benediktsson sem hefur skrifað bækur sem ungir lesendur heillast af. Ræðu Ævars Þórs má lesa hér.

 

Ævar Þór Benediktsson, Illugi Gunnarsson og Sigurður Pálsson á degi íslenskrar tungu 2016. Mynd: Auður Rán Þorgeirsdóttir.

 

24. nóvember – Útgáfa pistlasafns

Útgáfuteiti var síðasti viðburður afmælishaustsins þegar því var fagnað að pistlasafnið Konan kemur við sögu væri komið út.

 

Þrír pistlahöfundar: Guðrún Laufey Guðmundsdóttir, Þórdís Úlfarsdóttir og Guðvarður Már Gunnlaugsson.

 

Þá söfnuðust saman pistlahöfundar, lesendur, stjórnarmenn og aðrir áhugasamir, hlustuðu á nokkrar örræður pistlahöfunda og skoðuðu bókina sem var til sýnis og sölu. Fyrsta eintakið var afhent Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, framkvæmdastjóra 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna árið 2015. Við sama tækifæri var Helgu Kress, brautryðjanda í bókmenntarannsóknum, afhent eintak.