Skip to main content

Fréttir

Afmælishaust

1. september verða 10 ár liðin frá sameiningu fimm lykilstofnana á sviði íslenskra fræða sem saman mynda Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Hinn 2. júní 2006 samþykkti Alþingi Íslendinga lög um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Samkvæmt þeim voru Íslensk málstöð, Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun sameinaðar frá og með 1. september 2006. Hin nýja stofnun tók við skyldum stofnananna fimm og þeim verkefnum sem þær sinntu. Fyrsti forstöðumaður stofnunarinnar var dr. Vésteinn Ólason.

 

Af þessu tilefni verður efnt til viðburðaraðar sem hefst 1. september og stendur til 16. nóvember sem er dagur íslenskrar tungu.

Fyrirlestrar, opnanir og ráðstefnuhald einkenna þetta afmælishaust en meðal staðfestra viðburða eru:

  • 1. september:  Starfs- og stjórnarmenn stofnunarinnar fyrr og nú fagna sameinuðum áratug á léttum nótum.
  • 1. – 2. september: Árlegt þing norrænu málnefndanna haldið í Vasa í Finnlandi. 
  • 13. september:  Ný útgáfa af grunnnámskeiði Icelandic Online, Björgum, opnuð. Að verkefninu standa Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  • 14. september:  Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur flytur Sigurðar Nordals fyrirlestur
  • ​16. – 17. september:  Árlegur fundur í  Nordkurs samstarfinu um sumarnámskeið í norrænum tungumálum haldinn í Reykholti.
  • 6. október:  Orðanetið opnað við hátíðlega athöfn en með því opnast almenningi nýr möguleiki til að nýta sér breidd íslenskunnar til fulls. Opnun Orðanetsins fer fram í Hannesarholti við Grundarstíg kl. 14.30-16.00. 
  • október:  Veglegt rit sem byggir á pistlaröð í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli kvenna á Íslandi kemur út.
  • 20. – 21. október:  Alþjóðleg ráðstefna um handritið GKS 1812 4to.
  • 11. nóvember:  Norræn samstarfsnefnd um Norðurlandafræðslu erlendis, sem stofnunin á aðild að, heldur haustfund sinn í Reykjavík.
  • 13. nóvember:  Margrét Eggertsdóttir rannsóknarprófessor flytur Árna Magnússonar fyrirlestur á afmælisdegi Árna, að þessu sinni í Hofi á  Akureyri.
  • 16. nóvember:  Dagur íslenskrar tungu. Vefgáttin Málið.is opnuð við hátíðlega athöfn en nánari upplýsingar um notagildi Málsins verða birtar er nær dregur.

Nánari upplýsingar um viðburði koma síðar og verður viðburðatal á heimasíðu stofnunarinnar uppfært reglulega.