Skip to main content

Fræðileg heildarútgáfa á verkum Hallgríms Péturssonar

Hallgrímur Pétursson (1614–1674) var eitt fremsta skáld Íslendinga fyrr og síðar og eftir hann liggur fjöldi sálma og kvæða, auk rímna- og sálmaflokka og fáeinna lausamálstexta. Einungis tvö kvæði Hallgríms, auk Passíusálmanna, eru varðveitt í eiginhandarriti, en hann varð snemma vinsælt skáld og því voru mörg kvæða hans skrifuð upp hvað eftir annað auk þess sem þau gengu manna á milli í munnlegri geymd. Varðveisla kvæðanna er því oft flókin. Rannsóknin beinist að öllum uppskriftum kvæða sem eru eignuð Hallgrími í handritum (stundum ranglega) og hliðsjón er einnig höfð af fyrstu prentuðu útgáfum kvæðanna á 18. öld og efni úr segulbandasafni Árnastofnunar. Upplýsingum um uppskriftir kvæðanna er komið í sérstakan gagnagrunn. Útgáfan verður í fjórum hlutum, Ljóðmæli, Sálmaflokkar, Rímur, Laust mál, alls 8 bindi. Fjögur bindi eru nú komin út og unnið er að því fimmta. Útgáfuna önnuðust Margrét Eggertsdóttir, Svanhildur Óskarsdóttir og Þórunn Sigurðardóttir.

Í tengslum við útgáfuna hefur Margrét Eggertsdóttir rannsakað sérstaklega kveðskap Hallgríms í ljósi evrópsks barrokkkveðskapar og ritað um efnið doktorsritgerð Barokkmeistarinn Hallgrímur Pétursson sem hún varði við Háskóla Íslands í október 2005.
Á Passíusálmavef Ríkisútvarpsins má fræðast nánar um skáldið.

Margrét Eggertsdóttir er verkefnisstjóri.