Skip to main content

Flettibók: Langa Edda

Myndskreytingar

Það sem handritið er þó einkum þekkt fyrir eru 23 litskreyttar myndir af goðum, gyðjum, jötnum og jötnameyjum úr norrænni goðafræði, t.d. Gunnlöðu, Braga og Loka Laufeyjarsyni.

Myndunum fylgja athugasemdir skrifara, t.d. stendur við myndina af Gunnlöðu: „Mjöð gefur Gunnlöð. Óðinn hann kyssti hana og var hjá henni þrjár nætur. Suttungsdóttir. Kysstu mig og skaltu verða skáld. Faðmaðu mig og skaltu kveða vel“.  Bragi og Loki Laufeyjarson standa saman á síðu og við hlið þeirra er listi yfir kenningar sem nota má um þá.

 

Skrifunartími

Handritið virðist vera skrifað árið 1680 eða um það leyti þar sem ártalið stendur skýrum stöfum á titilsíðu Eddu sem er reyndar inni í miðri bók. Þar segir:

„EDDA eður samtök fornra ævintýra og dæmisagna þeirra fyrri Norðmanna sem flýðu hingað í Norðurhálfuna utan úr Asía fyrir kristni. Ásamt nokkur tegund þeirra gamal íslensku eður norsku orða hvað menn halda saman skrifað af Sæmundi hinum fróða og Snorra Sturlusyni íslenskunni til orða fjölda sérdeilis í skáldskaparmálum. Skrifað ad nýju Anno ... 1680“ (bl. 34r).

Ekki er vitað hver eða hverjir skrifuðu handritið en á titilsíðu Eddu er að finna upphafsstafina SG. Aftast í handritinu eru upphafsstafirnir GSS.

 

Í hendur Árna Magnússonar

Árni Magnússon fékk handritið frá Magnúsi Jónssyni frá Leirá eins og fram kemur á seðli sem fylgir handritinu en Magnús fékk það frá Ingibjörgu Jónsdóttur í Bæ í Hrútafirði. Áður hafði það verið í eigu Sigurðar Gíslasonar í Bæ. Magnús Jónsson lést árið 1702 þannig að handritið hefur ekki verið nema rúmlega 20 ára þegar Árni eignaðist það. Handritið var síðan í safni Árna í Kaupmannahöfn allt til ársins 1991 þegar Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi tók við því. Árið 1964 var gert við handritið og það bundið inn á Árnastofnun í Kaupmannahöfn.