Skip to main content

Flettibók: Konungsbók Snorra-Eddu

Fyrsti hluti

Fyrst er formáli sem líta má á sem eins konar heimspekilegan inngang að öllu verkinu. Þar eru heiðin trúarbrögð rakin til fornrar dýrkunar á náttúrunni og norrænu goðin talin afkomendur Priams Trójukonungs sem fluttust til Norðurlanda og voru teknir þar í guðatölu.

 

Annar hluti

Annar hlutinn er Gylfaginning sem er rammafrásögn í formi spurningakeppni milli þriggja ása og Gylfa konungs úr Svíþjóð sem kemur á þeirra fund dulbúinn sem förumaður og nefnist Gangleri. Í svörum ásanna við spurningum Gylfa er fólgið ítarlegt yfirlit yfir norrænar goðsagnir allt frá tilurð jötna og goða og sköpun heimsins til tortímingar hans í ragnarökum. 

Víða er vitnað til vísna úr eddukvæðum eins og Völuspá, Vafþrúðnismálum og Grímnismálum og þá stundum til annarrar gerðar en þeirrar sem varðveitt er í Konungsbók eddukvæða.

 

Þriðji hluti

Þriðji hluti Eddu, Skáldskaparmál, hefst einnig í formi viðræðu milli Braga, guðs skáldskaparins, og Ægis, sjávarguðsins, þar sem Bragi segir honum ýmsar goðsagnir í upphafi en svo hverfur frásögnin frá samtalsforminu og snýst yfir í skýringar og yfirlit yfir skáldskaparmálið, þ.e. kenningar og heiti sem eru flokkuð eftir merkingu sinni.

Tekin eru fjöldamörg dæmi um notkun kenninga og heita úr kvæðum norskra og íslenskra skálda frá ýmsum tímum og iðulega vitnað til kvæða sem nú eru glötuð. Einnig er skotið inn frásögnum úr goðsögnum og hetjusögnum til skýringar á uppruna kenninga.

 

Fjórði hluti

Síðasti hluti Eddu er Háttatal sem er þrískipt kvæði, 102 vísur sem sýna eiga hina ýmsu bragarhætti. Snorri orti kvæðið sjálfur og í fyrsta þriðjungi þess lofar hann Hákon Hákonarson Noregskonung, í öðrum þriðjungi Skúla jarl og í síðasta þriðjungnum þá báða fyrir sigursæld í orrustum og örlæti við fylgismenn sína.

 

Snorri Sturluson

Talið hefur verið að Snorri hafi samið verkið eftir að hann kom frá Noregi 1220. Hafi hann þá fyrst ort Háttatal um þá Hákon konung og Skúla jarl en bætt síðan framan við Skáldskaparmálum, Gylfaginningu og Prologus. Snorra-Edda var umfram allt handbók þeirra skálda sem dýrt þurftu að kveða og nota vildu rétt heiti og kenningar að fornum hætti.

Augljóst er að Snorri hefur haft stuðning af erlendum bókum bæði í guðfræði og skáldskaparmennt, en hann fer með hugtök þeirra fræða á mjög frjálslegan hátt. Bygging verksins er þó áþekk alkunnum námsbókum á síðari hluta 12. aldar; lærisveinn spyr meistara og skráðar eru spurningar og svör. Fyrir lesendur nú á dögum er hún mikilvægasta heimild norrænna þjóða um heiðin trúarbrögð og goðsagnir.

Kvæði eftir þekktan höfund

Aftan við Eddu í Konungsbók standa tvö kvæði eftir Bjarna Kolbeinsson biskup (d. 1222) úr Orkneyjum: Jómsvíkingadrápa og Málsháttakvæði.

Heimkoma

Brynjólfur Sveinsson gaf Friðriki III. Danakonungi handritið 1662 og í bókhlöðu hans var það uns það kom aftur hingað til Íslands 1985.