Konungsbók er elsta og merkasta safn eddukvæða sem varðveist hefur og frægust allra íslenskra bóka. Kvæðin í henni skiptast í tvo aðalflokka. Í fyrri hluta bókarinnar eru kvæði um heiðin goð en í síðari hlutanum kvæði um fornar germanskar hetjur.
Goð og hetjur
Norrænu goðin
Fremst er skipað Völuspá, yfirlitskvæði sem birtir í leiftursýnum heimsmynd og heimssögu ásatrúar. Um svipað efni fjalla Vafþrúðnismál og Grímnismál sem koma litlu síðar í handritinu og vitnar Snorri Sturluson til þessara þriggja kvæða í frásögn sinni af goðafræðinni í Snorra-Eddu. Milli Völuspár og Vafþrúðnismála eru Hávamál sem lögð eru Óðni í munn, siðakvæði og heilræða, sett saman úr mörgum sjálfstæðum þáttum.
Á eftir Grímnismálum koma önnur goðakvæði sem öll fjalla um einstaka viðburði í lífi goðanna. Nefna má meðal annars Lokasennu sem lýsir veisluspjöllum Loka hjá sjávarguðinum Ægi, Skírnismál sem greina frá för Skírnis til að biðja Gerðar Gymisdóttur fyrir hönd Freys, með göldrum og formælingum þegar ástarorðin þrýtur, og Þrymskviðu þar sem Þór ekur í jötunheima, dulbúinn sem Freyja, til að heimta hamar sinn sem Þrymur jötunn hefur stolið.
Fræðimenn hafa greint á um aldur goðakvæðanna, enda eru þau misgömul. Sum þeirra eru talin ort fyrir tíma kristni á Íslandi en önnur voru mögulega ort á 11. eða 12. öld. Bent hefur verið á að af spássíumerkingum í handritinu megi ráða að sum kvæðin hafi verið flutt með leikrænum hætti.
Hetjur fortíðar
Hetjukvæðunum má skipta í flokka eftir efni og aðalpersónum. Fyrst er kveðskapur um Helga Hundingsbana og nafna hans Hjörðvarðsson, þá um Sigurð Fáfnisbana, síðan koma kvæði um Atla Húnakonung og Gjúkunga, og loks kvæði um Jörmunrek konung Austgota. Atli, Jörmunrekur og Gunnar Gjúkason eru sögulegar persónur sem lifðu á tímum þjóðflutninganna miklu, en þótt fyrirmynda þeirra Helga Hundingsbana og Sigurðar hafi að vísu verið leitað hafa þeir ekki verið tengdir sögulegum persónum með jafn afdráttarlausum hætti og hinir.
Flokkarnir tengjast saman með skyldleika og mægðum fólksins. Kvæðin eru misgömul að uppruna og endurspegla ólíkt umhverfi í stíl og efnistökum. Milli goða- og hetjukvæðanna í handritinu standa Völundarkviða og Alvíssmál og fer vel á því þar eð persónur þeirra eru á milli tveggja heima, hvorki goð né menn.
Kvæði í öðrum handritum
Nokkur kvæði í Konungsbók eru varðveitt í fleiri handritum en flest eru hvergi til nema þar og í eftirritum sem frá Konungsbók eru runnin. Í Árnasafni í Kaupmannahöfn eru leifar af annarri uppskrift eddukvæða náskyldri Konungsbók (AM 748 I a 4to) og munu bæði handritin runnin frá sömu frumuppskrift.
Í öðrum yngri handritum eru líka einstöku kvæði sem svipar til kvæðanna í Konungsbók og er venja að telja þau einnig til eddukvæða. Þar á meðal eru Baldursdraumar í AM 748 I a 4to, Hyndluljóð og Völuspá hin skamma í Flateyjarbók (GKS 1005 fol.), Gróttasöngur og Rígsþula í handritum Snorra-Eddu, Hlöðskviða felld inn í Hervarar sögu. Stöku sinnum virðist um að ræða tvær eða fleiri sjálfstæðar uppskriftir eddukvæða eftir munnlegri geymd. Þannig er Völuspá í mismunandi gerðum í Konungsbók og Hauksbók (AM 544 4to) en brot þriðju gerðar eru í Snorra-Eddu.
Heimkoma
Brynjólfur biskup sendi bókina Friðriki þriðja Danakonungi, ásamt fleiri merkum skinnbókum, árið 1662. Hún var síðan varðveitt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Hún kom aftur heim til Íslands 21. apríl 1971.