Skip to main content

Flateyjarbók – GKS 1005 fol.

Flateyjarbók er að mestu skrifuð um 1390. Hún er rituð af tveimur prestum, Jóni Þórðarsyni og Magnúsi Þórhallssyni, og hefur sá síðarnefndi einnig lýst bókina (dregið alla skrautstafi og myndir). Meginefni ritsins eru sögur af Noregskonungum. Efni er safnað saman víða að, og hefur verið notaður fjöldi forrita, enda er Flateyjarbók stærst allra íslenskra skinnbóka, 202 blöð í öndverðu í svo stóru broti að ekki hafa fengist nema tvö blöð úr hverju kálfskinni. Flateyjarbók var einar tvær aldir í eigu sömu ættar við Breiðafjörð, síðast Jóns Finnssonar í Flatey, sem gaf Brynjólfi biskupi Sveinssyni bókina 1647. Biskup sendi Danakonungi Flateyjarbók 1656 og hlýðnaðist með því beinum fyrirmælum konungs, jafnframt því sem hann hugðist stuðla að varðveislu og kynningu fornritanna. Flateyjarbók var afhent Háskóla Íslands vorið 1971.

 

Ólafs saga Tryggvasonar

Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta — (eða Óláfs saga Tryggvasonar en mesta) — er konungasaga, sem fjallar um Ólaf Tryggvason Noregskonung. Hún er samin um 1300 og styðst við Ólafs sögu Tryggvasonar eins og Snorri Sturluson gekk frá henni í Heimskringlu, en eykur frásögnina mikið með öðru efni. Einkum er stuðst við fyrri sögur um Ólaf konung, t.d. Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk Snorrason, glataða sögu um Ólaf eftir Gunnlaug Leifsson, og e.t.v. einnig efni úr öðrum glötuðum ritum eða úr munnlegri geymd. Sagan er varðveitt í nokkrum handritum, sem skipta má í tvo flokka. Eldri útgáfa sögunnar er í handritunum AM 61 fol. (aðalhandrit, A), AM 53 fol., AM 54 fol., Bergsbók og Húsafellsbók. Yngri útgáfa, endurskoðuð og aukin (D-gerð), er í handritunum AM 62 fol. og Flateyjarbók. Í Flateyjarbók er sagan mikið aukin, með því að skotið er inn í hana heilum sögum, eða köflum úr sögum, sem eitthvað tengjast Ólafi konungi Tryggvasyni. Þannig hefur varðveist margvíslegt efni sem annars væri glatað, t.d. meginhluti Færeyinga sögu, sem er þar í upprunalegri gerð.

 

Orkneyinga saga

Orkneyinga saga (einnig kölluð Jarlasögur) er íslensk saga, sem fjallar um sögu Orkneyja (og norðurhluta Skotlands), frá því Noregskonungar lögðu eyjarnar undir sig á 9. öld, allt fram undir 1200. Sagan segir einkum sögu jarlanna (Orkneyjajarla), sem stýrðu eyjunum í umboði Noregskonungs.