Skip to main content

Bragi – óðfræðivefur

Bragi – óðfræðivefur er gagnvirkur rannsóknargrunnur í bragfræði- og bókmenntum. Einnig nýtist hann vel til rannsókna á öðrum sviðum, til dæmis orðfræði, hljóðkerfisfræði og málsögu. Í honum er hægurinn hjá að rannsaka uppruna einstakra bragarhátta, dreifingu þeirra og vinsældir og hvaða hættir þóttu best henta ákveðnum yrkisefnum. Mestur hluti íslenskra fagurbókmennta milli 1400 og 1800 var í bundnu máli og menn bundu reyndar ­„hugsun sína og hag í ljóð“ á því næst öllum sviðum lífsins á þessu tímabili. Því má ætla að grunnurinn nýtist einnig vel til rannsókna í þjóðfræði og jafnvel sagnfræði þegar fram líða stundir. Grunnurinn er þegar orðinn öflugt rannsóknartæki og nýta Haukur Þorgeirsson og Bjarki Karlsson, sem báðir eru doktorsnemar í bragfræði, sér hann óspart við sína vinnu og jafnframt nýtur vefinn rannsókna þeirra. Hluti af grunninum er reyndar sérstakur vinnugrunnur Bjarka með dægurlagatextum frá 1950 til 2012. Hann er reyndar ekki opinn almenningi enn sem komið er þar sem samningum við höfundarréttarhafa er ólokið. Af öðrum fræðimönnum sem unnið hafa við grunninnn og nota sér hann jafnframt við rannsóknir sínar má nefna Yelenu Sesselju Helgadóttur sem vinnur nú að doktorsritgerð um íslenskar þulur, Þórð Helgason dósent á menntavísindasviði Háskóla Íslands og Rósu Þorsteinsdóttur á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þá er að geta þess að nokkur héraðsskjalasöfn hafa þegar tengst Braga og munu þau einkum leggja áherslu á skráningu skáldskapar úr heimahéraði eftir 1800. Mest munar þar um Vísnasafn Skagfirðinga með fleiri þúsundum lausavísna. Stefnt er að því með tíð og tíma að fullskrá öll varðveitt ljóð eldri en frá því um aldamótin 1800 og ætti þá með hinu gagnvirka viðmóti að vera unnt að rannsaka rækilega sögu og þróun íslenskrar ljóðagerðar í aldanna rás, jafnframt því sem þá fengjust stórmiklar upplýsingar um þróun íslensks máls ásamt vitneskju sem gagnaðist bæði þjóðfræðingum og sagnfræðingum. Niðurstöður sumra þessara rannsókna verða smám saman birtar á Braga sjálfum, einkum þó á Handbók hans.
Ritstjóri Braga og umsjónarmaður gagnagrunna er Bjarki Karlsson.