Skip to main content

Viðtal við François-Xavier Dillmann

François-Xavier Dillmann prófessor emerítus hlaut á haustdögum 2021 íslensku fálkaorðuna fyrir framlag sitt til þýðinga á íslenskum miðaldabókmenntum og áralangar rannsóknir á íslenskum sagnaarfi. Dillmann er fæddur í Frakklandi 27. nóvember 1949. Hann lauk doktorsprófi í germönskum fræðum frá háskólanum í Caen árið 1976 og annarri doktorsgráðu í norrænum fræðum frá sama skóla árið 1986.

François-Xavier Dillmann og Guðvarður Már Gunnlaugsson í trjágörðum Versala.

Frá árinu 1988 hefur Dillmann verið prófessor í fornnorrænum fræðum við École pratique des hautes études í París. Hann er stofnandi og forseti Société des études nordiques og ritstjóri tímaritsins Proxima Thulé. Hann er meðlimur í fjölda fræðafélaga svo sem Konunglegu Gústafs Adolfs akademíunni í Ósló, Konunglegu sænsku Vitterhetsakademíunni í Stokkhólmi, Norsku vísindaakademíunni í Ósló, Konunglega vísindafélaginu í Þrándheimi, Konunglega vísindafélaginu í Uppsölum og Académie des Inscriptions et Belles-Lettres í Frakklandi. Dillmann hefur skrifað fjölda verka um sögu og menningu víkingaaldar, forn norræn trúarbrögð, bókmenntir og rúnir.

François-Xavier Dillmann var einn af þremur fræðimönnum sem hlutu styrk Snorra Sturlusonar árið 2020 en kom ekki til landsins fyrr en ári síðar vegna heimsfaraldursins. Í sumar dvaldi hann í Reykholti í Borgarfirði en líka í fræðimannaíbúð Árnastofnunar við Þingholtsstræti 29 í Reykjavík. Af þessu tilefni var tekið viðtal við þennan merka fræðimann.

Aðspurður hvenær hann hafi fyrst komið til Íslands segir François-Xavier það hafa verið sumarið 1984. Hann var að skrifa doktorsritgerð sína á Árnasafni í Kaupmannahöfn á árunum 1980 til 1986. Sumarið 1984 kom hann til Íslands til þess að taka þátt í námskeiði í nútímamáli fyrir nemendur frá Norðurlöndunum og þar sem hann var við nám í Kaupmannahöfn var hann talinn einn af þeim.

„Ég kom til Íslands með skipi. Fyrst var haldið til Færeyja og svo til Seyðisfjarðar. Þar biðu mín vinir mínir Stefán Karlsson og Guðrún Magnúsdóttir, en þeim báðum hafði ég kynnst á Árnasafni í Kaupmannahöfn. Við ókum sem leið lá til Akureyrar og svo til Reykjavíkur þar sem ég var á námskeiði í u.þ.b. mánuð. Svavar Sigmundsson var kennari minn og var það mjög skemmtilegt. Eftir námskeiðið fór ég í sveit í Svarfaðardal á Völlum í tvær vikur. Svo var þetta búið að þessu sinni og ég fór aftur til Kaupmannahafnar og kláraði doktorsritgerðina. Ég fór svo aftur til Íslands til að vera í lengri tíma. Ég vann þá á rannsóknarstofnun Frakka (Centre national de la recherche scientifique) og fór sem vísindamaður til Íslands til þess að stunda nám (sérstaklega handritafræði undir leiðsögn Stefáns Karlssonar) og fást við fræðistörf á Árnastofnun. Þetta var í september 1986 og ég dvaldi á Íslandi í tvö ár.“

Árið 1988 fékk François-Xavier Dillmann prófessorsstöðu við Sorbonne háskóla, við rannsóknarstofnunina École pratique des hautes études í París. Helstu rannsóknir François-Xavier Dillmanns hafa verið á sviði norrænna fræða (textafræði, sagnfræði og trúarbragðafræði).

Árunum á Íslandi 1986–1988 varði hann m.a. í að þýða Snorra-Eddu á frönsku og semja textaskýringar sem fylgdu þýðingunni. Bókin kom út í Frakklandi árið 1991 í ritröð sem heitir heitir L'aube des peuples hjá forlagi Gallimard í París og birtir í franskri þýðingu texta sem teljast til sígildra fornbókmennta. Þýðingin á Snorra-Eddu hefur verið endurprentuð 25 sinnum og seld í að minnsta kosti 50 þúsund eintökum.

François hlaut verðlaun frá Félagi franskra þýðenda fyrir þessa þýðingu. Bókin vakti strax talsverða athygli, en hún verður vinsælli með hverju árinu. „Þetta kemur útgefandanum á óvart og mér líka,“ segir François. Hann telur jafnframt að J.R.R. Tolkien eigi stóran þátt í vinsældum norrænna rita, m.a. vegna kvikmynda sem byggðar eru á sögum hans.

François-Xavier ásamt Claire eiginkonu sinni og Mathilde dóttur þeirra hjóna í Versölum.

„Það er töluvert verk að þýða fornar bókmenntir,“ segir François og heldur áfram „maður þarf að vera nákvæmur og halda stílnum.“ François lét ekki þar við sitja heldur hóf að þýða Heimskringlu sem mun koma út í sömu ritröð hjá forlagi Gallimard í þremur bindum. „Heimskringla I kom út árið 2000. Þarna eru útskýringar mun fleiri og ýtarlegri en í Snorra-Eddu þýðingunni. Þessi þýðing var endurprentuð tvisvar en seldist náttúrulega ekki eins vel og Snorra-Edda. Hún er þykkari og öðruvísi aflestrar. Nýjasta endurprentunin kom út síðasta sumar. Svo í framhaldi af henni var samið um Ólafs sögu konungs ins helga sem er annar hluti Heimskringlu – hún átti að koma út í fyrra en vegna faraldursins var því frestað. Hún er væntanleg með vorinu 2022.“

En hvað ætli François-Xavier Dillmann sé að fást við núna?

„Ég er með ritgerðasafn um Ólafs sögu konungs helga á prjónunum.“

François fékk Snorrastyrk til að dvelja í þrjá mánuði á Íslandi og vinna að fræðistörfum og ætlaði þá aðallega að snúa sér að þriðja og síðasta bindi Heimskringlu en þurfti að fresta því vegna COVID-19-faraldursins.

Hann gat einungis notað einn mánuð af þessum styrk í fyrra (2021) og dvaldist bæði í fræðimannaíbúð Árnastofnunar og í Reykholti.

„Mér fannst mjög gott að vera í Snorrastofu í Reykholti og kann vel við mig þar. Ég hef verið þar áður og frá árinu 2015 hef ég verið þar á hverju sumri í að minnsta kosti mánuð. Þar er góður fræðimannabústaður, nýtískulegur og perfekt. Heimafólk er mjög duglegt, vinsamlegt og hjálplegt. Já presturinn, fyrrverandi prestur séra Geir er mjög fróður og við erum orðnir nánir vinir en það sama gildir um Óskar Guðmundsson, fræðimann sem ég spyr gjarnan margra spurninga þegar við erum að vinna báðir á bókasafni Snorrastofu, eða þegar við förum í sund í Borgarnesi. Ég er náttúrumanneskja svo ég fer tvisvar á dag og geng í skóginum, mér finnst þetta mjög gaman. Það er líka þægilegt að geta notað bókasafnið hvenær sem er, hvort sem það er klukkan 12 um nótt eða mjög snemma dags.“

Aðspurður um fálkaorðuna segir François: „Það er mikill heiður að fá fálkaorðuna.“

Við afhendingu fálkaorðunnar 2021. François ásamt forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni.

François segist einnig mjög þakklátur fyrir þá íslenskukennslu sem hann hlaut á níunda áratugnum og telur gott að ræða við fræðimenn hérna um nýjar hugmyndir og fræðast um nýjar íslenskar fræðibækur.

Það eftirminnilegasta sem François hefur upplifað hér á landi er tveggja daga ferð í Grunnavík á Vestfjörðum með Góðvinum Grunnavíkur-Jóns sumarið 2007. „Þetta var sumpart erfið ganga en mjög fallegt landslag og skemmtileg ferð með góðu fólki.“

 

Viðtalið var tekið í lok október 2021.