Miðstöð íslenskra bókmennta stóð fyrir þýðendaþingi dagana 11. og 12. september í Veröld – húsi Vigdísar, en Árnastofnun var einn af samstarfaðilum þingsins. Á þinginu komu saman tæplega 30 þýðendur frá 17 málsvæðum, jafnt reyndir þýðendur og nýir. Um helmingur þátttakenda er búsettur hér á landi og helmingur kom sérstaklega til landsins til að sækja þingið.
Dagskrá þingsins var þétt og fjölbreytt, í formi vinnustofa og fyrirlestra höfunda og sérfræðinga um allt mögulegt er lýtur að íslensku máli og gildi þýðinga fyrir höfunda og menningu þjóðarinnar. Jafnframt tóku gestir þingisn þátt í bókmenntagöngum, mótttökum og öðrum mannamótum.
Markmið með þýðendaþinginu er meðal annars að efla og treysta tengslin við starfandi þýðendur á erlend tungumál og sýna í verki hve mikils metin þeirra vinna er, en þýðendur bókmennta á erlend mál eru öflugir sendiherrar bókmenntanna og auka hróður þeirra um allan heim.
Þetta er í annað skipti sem slíkt þing er haldið hér á landi fyrir þýðendur íslenskra bókmennta á ýmis erlend mál samtímis, en fyrsta þingið var haldið árið 2009 í aðdraganda heiðursþátttöku Íslands á bókasýningunni í Frankfurt. Einnig hafa áður verið haldin norræn þýðendaþing.
Miðstöð íslenskra bókmennta hafði veg og vanda af undirbúningi og skipulagi þingsins. Samstarfsaðilar voru auk Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Félag íslenskra bókaútgefenda, Bandalag þýðenda og túlka, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Rithöfundasamband Íslands, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
Þingið nýtur fjárstuðnings Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Utanríkisráðuneytis og Íslandsstofu.