Skip to main content

Viðburðir

Sigurðar Nordals fyrirlestur 2005 - Ingibjörg Haraldsdóttir

14. september
2005
kl. 17–18

Ingibjörg Haraldsdóttir: „Ljóð gripin sem hálmstrá“

Sigurðar Nordals fyrirlestur
Norræna húsinu
14. september 2005
 
Einu sinni var
Undankoman
var jafnan vís:

öryggi draumanna
tryggð orðanna

ljóð gripin sem hálmstrá
fljúgandi tónar: upp upp mín sál...

bakvið myrkrið
framtíð í öllum
regnbogans litum!

Í þessu ljóði, sem birtist í bók minni Höfuð konunnar, kemur fram ákveðið viðhorf til skáldskapar, viðhorf sem ég hef lengi aðhyllst og lítið hefur breyst á þeim tíu árum sem liðin eru frá útkomu bókarinnar. Samkvæmt því viðhorfi geta ljóð verið örugg flóttaleið þurfi maður að flýja eitthvað eða einhvern, orðin og draumarnir eru það sem við getum alltaf treyst, ljóðin bjarga mannslífum – þau eru gripin sem hálmstrá – þau eru nauðsynleg, þau hefja mann upp úr gráma hvunndagsins, leiða hugann að því óáþreifanlega og sálræna, þau lýsa upp myrkrið og gefa fyrirheit um litríka framtíð. Þau segja: láttu ekki hugfallast þótt myrkrið sé dimmt, einhverntíma birtir á ný.

Ég held því ekki fram að þetta viðhorf gildi um öll ljóð og alla ljóðaunnendur. Ljóð eru margvísleg og til margra hluta nytsamleg, þau má nota og þeirra má njóta jafnvel þótt hvorki skáldið né lesandinn séu í alvarlegri lífshættu. Til eru ljóð sem segja langar sögur og önnur sem sett eru saman úr örfáum orðum og virðast við fyrstu sýn ekki segja neitt, en gera það samt. Sum ljóð hafa augljósan boðskap, önnur eru myrk og dularfull. Persónulega finnst mér nauðsynlegt að ljóðin snerti tilfinningar lesandans, hvort sem þau eru hugljúf eða hrollvekjandi eða eitthvað þar á milli.

Víkjum nú aftur að ljóðinu sem ég byrjaði á. Heiti þess, Einu sinni var, tengir þetta ljóð við ævintýri bernskunnar. Ef vel er að gáð má finna þarna frásögn af litlum bókaormi sem leitar skjóls í ljóðum og sögum þegar veröldin er dimm og drungaleg – sú frásögn var að minnsta kosti kveikjan að ljóðinu. Vegurinn frá kveikju til fullskapaðs ljóðs er hinsvegar oft nokkuð langur og hlykkjóttur og ekki víst að mikið sé eftir af upprunalegu hugmyndinni þegar skáldið er orðið ánægt með ljóðið og finnst það birtingarhæft. Líklega er ég eina manneskjan sem kem auga á litla bókaorminn í þessu ljóði.

Í fyrstu bók minni, Þangað vil ég fljúga, sem kom út 1974, er að finna nokkur ljóð sem fjalla einnig um bernskuna. Þau eru öll byggð á minni eigin reynslu af því að vera barn. Eitt þeirra heitir Kýr í haga. Þar segir frá fyrstu áheyrendum að skáldskap höfundarins, nefnilega kúnum á bænum þar sem ég var í sveit og hafði þann starfa að reka kýrnar á beit á morgnana og sækja þær á kvöldin. Þar segir m.a.:

jórtrandi kýr í haga
lygna augum og hlusta á ævintýrin mín

Ykkur kann að detta í hug að þetta sé fegruð útgáfa af veruleika sem hafi í raun verið miklu hversdagslegri, en ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég man ljóslega eftir að hafa samið sögur og jafnvel vísur handa kúnum, og kyrjað þær upphátt þegar við vorum komnar nógu langt út í haga, kýrnar og ég, burt frá eyrum fólksins á bænum. Ég sé þær enn fyrir mér, svo rólyndar og góðar, og heyri þær baula lágt öðru hverju einsog til að taka undir með skáldinu, og svo sveifla þær halanum og slá taktinn. Ef ég man rétt voru sögurnar mínar og vísurnar yfirmáta rómantískar og væmnar en kýrnar létu það ekki trufla sig, þær voru yndislegir hlustendur og skyldi enginn vanmeta slíkt públikum, enda segir í síðustu ljóðlínunni:

Þolinmæði kúnna þrýtur aldrei.

Mér verður stundum hugsað til þessara löngu liðnu bernskudaga minna vestur í Hnappadalssýslu og finnst þá að ég hafi unað sæl og glöð í sveitinni frá vori til hausts þessi fjögur sumur sem ég var þar, böðuð sólskini alla daga; mér finnst ég hafa þambað sindrandi vatnið úr bæjarlæknum og nagað puntstrá þess á milli. Þessum minningum mínum hættir stundum til að renna saman við sögur og kvæði sem í hávegum voru höfð á bernskuárum mínum og fjölluðu um legg og skel og smala á sauðskinnsskóm, svo ekki sé minnst á fossbúa, tröll og álfa. Svo gat tilveran auðvitað tekið á sig annan blæ, einsog glöggt má sjá í bréfi sem ég skrifaði föður mínum úr sveitinni þegar ég var níu ára. Þar monta ég mig af því að hafa farið á þrjú böll það sumarið, á eitt þeirra hafi komið blindfullir Heimdellingar, og ég hafi stútað vel hálfri brennivínsflösku sem einhver þeirra hafði skilið eftir úti á hlaði. Af þessu má sjá að ég hef verið harður gútemplar í þá daga, auk þess sem mér virðist hafa verið fremur uppsigað við Heimdellinga af einhverjum ástæðum.

En það var þetta með vísurnar og sögurnar sem ég samdi fyrir kýrnar. Ég hef stundum velt því fyrir mér, án þess að komast að eiginlegri niðurstöðu, hvaðan hún sé upprunnin þessi árátta, að raða saman orðum, búa til vísur eða sögur? Hvað er það sem fær börn til að ala með sér dagdrauma og finna þeim skáldlegt form sem að vísu kemst sjaldan á blað en lifir í munnlegri geymd þeirra sjálfra, oftast sem vel falið leyndarmál, og týnist svo þegar barnið kynnist heiminum betur, eða ætti ég að segja einsog Sobbeggi afi: þegar hann Gvuð er farinn úr því?

Öldum saman hafa menn rifist um hvort sé mikilvægara, upplag eða uppeldi, en út í þá sálma hætti ég mér ekki frekar. (Leyfi mér þó að geta þess innan sviga, að það hljóti að vera vænlegra nýfæddu skáldi að heimurinn taki því syngjandi og undir eins sé byrjað að kveða og bía og lesa fyrir það, heldur en lenda hjá laglausu og ólæsu fólki sem aldrei hefur heyrt vísu kveðna eða kvæði flutt, þótt slík óheppni þurfi alls ekki að hamla meðfæddri skáldgáfu einsog dæmin sanna.)

Sumir halda því nefnilega fram að þessi árátta, eða hneigð, hljóti að vera meðfædd og hafi frá örófi alda verið innbyggð í tegundina homo sapiens. Á einhverjum tímapunkti aftur í grárri forneskju hafi hún kviknað og tekið til við að þróast einsog aðrar eigindir mannskepnunnar, áreiðanlega náskyld tónlistargáfu og listrænum hæfileikum á öðrum sviðum. Í framhaldi af því hlýtur að vakna sú spurning hvort við þurfum þá nokkuð að hafa áhyggjur af yfirvofandi og margauglýstu andláti ljóðsins. Ef skáldgáfan er meðfædd, hljóta þá ekki ljóðin að streyma af vörum skáldanna hvernig sem allt veltist? Jafnvel þótt okkur finnist allt vera að breytast – til hins verra eða betra, um það eru náttúrlega skiptar skoðanir, en hefur ekki heimurinn alltaf verið að breytast, bara misjafnlega hratt? Nú virðist okkur hann vera á fleygiferð og þá fer margan að svima, sumir reyna að vera alltaf fremstir en aðrir reyna að halda sér fast í fortíðina einsog hún hafi svör við öllum spurningum okkar. En hvernig snertir þetta ástand sjálfa skáldgáfuna: er hún nokkuð að breytast? Eru það ekki bara form og innihald ljóðsins sem breytast, og verða að breytast, ef við ætlum að tjá okkur um líf okkar í síbreytilegum heimi, eða hvað?

Góða fréttin er sú, að jafnvel þótt einhverjum líki ekki nógu vel við nýju ljóðin og finnist ljóðskáldin í dag ekki vera upp á marga fiska, þá þurfa þeir hinir sömu ekki að kvarta, á Íslandi hefur verið ort í ellefuhundruð ár og bókasöfnin eru stútfull af ljóðum allra tíma, bæði frumsömdum og þýddum. Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Á meðan halda ljóðskáld samtímans áfram sínu róli og skapa ný ljóð handa nýju fólki, af því að þörfin er alltaf fyrir hendi, þessi knýjandi þörf sem skáldgáfan vekur og rekur skáldið áfram, og einnig þörf lesandans fyrir ný ljóð, nýja sýn á líf sitt og annarra. Þegar þessum þörfum er fullnægt gerist það sem Jón úr Vör lýsti í ljóði sem heitir Hljómurinn:

Skáldið
og hinn góði lesandi
mætast andartak
á undarlegri strönd
í annarlegum
hljómi,
sem hvorugur veit
hver hefur
slegið.

Ég get vel ímyndað mér að skáldhneigðin sé algengari en fjöldi þeirra sem síðar leggja fyrir sig bókmenntaskrif gefur til kynna. Flestir gleyma þessu einsog hverjum öðrum bernskubrekum og fara að hugsa um allt annað. En hjá sumum rennur upp sú stund að þau finna sig knúin til að yfirstíga feimnina og kveða sér hljóðs, lesa ljóðin sín upphátt fyrir einhvern eða birta þau á prenti nema hvort tveggja sé. Viðtökurnar skipta miklu máli, en ráða þó ekki endilega úrslitum um það hvort viðkomandi verður skáld eður ei.

Vilborg Dagbjartsdóttir orti sitt fyrsta ljóð þegar hún var sex ára og kynntist þá strax þeim „djúpa fögnuði“ sem sköpunartilfinningin vekur, jafnvel þótt allir hafi hlegið þegar hún fór með ljóðið upphátt, enda vantaði í það bæði stuðla og höfuðstafi. Frá þessu segir hún mjög skemmtilega í bókinni Mynd af konu, sem Kristín Marja Baldursdóttir skráði. Hún segir líka: „Það skiptir engu þótt manni sé ekki hrósað, fögnuðurinn er til staðar og það getur enginn tekið hann frá manni. Sigurinn að hafa skapað. Út af þessu halda skáldin sem allir hæðast að áfram að vinna.“

Unnur Benediktsdóttir, betur þekkt sem Hulda, segir frá sínum fyrstu yrkingum í bókinni Úr minningablöðum. Þar segir: „Ég var, frá því fyrst ég man, gefin fyrir að gaufa alein, úti og inni og tala við sjálfa mig. Þá var ég stundum að ríma eitthvert bull, sem gleymdist aftur.“ Á eftir þessu koma fallegar náttúrulýsingar þar sem litla telpan drekkur í sig fegurð sveitarinnar sinnar og yrkir vísur sem hún þorir ekki að láta nokkurn mann heyra, en skrifar í litla bók og felur. Í minningabókinni sem hún skrifar á efri árum segir hún frá viðbrögðum sínum við þeim voðalega atburði þegar bókin hennar fannst og vísurnar voru lesnar: „Mér varð við sem stæði ég allsnakin frammi fyrir öllum heimi. Þetta var voðalegt. Það hefur aldrei þótt prýði á kvenfólki að yrkja – stóð í Grasaferð Jónasar...“ Hulda mundi líka eftir Ljósavatnssystrum sem „höfðu ort óttalegar vísur, svo að mennirnir þeirra urðu að borga heilmikið af peningum fyrir tiltektir þeirra. „Þetta hafði ég heyrt“, segir Hulda, „og af því að það snerti skáldskap kvenna, þá hafði það brennt sig inn í huga minn“.

Rússneska skáldið Anna Akhmatova segir í endurminningum sínum: „Fyrsta kvæðið orti ég þegar ég var ellefu ára (það var hræðilegt), en jafnvel áður hafði pabbi af einhverjum ástæðum kallað mig „dekadent skáldkonu“.“ Mér dettur einna helst í hug að Anna hafi verið orðin svo skáldkonuleg í útliti strax í barnæsku, að faðir hennar hafi ekki getað orða bundist – en orðið dekadent vekur óneitanlega spurningar sem ég get ekki svarað af því að ég veit ekki hvað fyrir manninum vakti með þessari skrýtnu athugasemd – veit ekki einu sinni hvað Önnu gekk til þegar hún rifjaði upp þessi orð hans, hvort hún var hreykin af að vera talin dekadent skáldkona ellefu ára eða hvort henni fannst pabbi sinn hafa farið yfir strikið. Það kemur ekki fram í frásögn hennar. Þar kemur heldur ekki fram hvernig þessu fyrsta kvæði hennar, sem henni fannst svo „hræðilegt“, hafi verið tekið, eða hvort hún hafi yfirleitt leyft einhverjum að heyra það eða lesa.

Ég orti semsé fyrir kýrnar til að byrja með, þakklátustu áheyrendur sem völ var á í sveitinni. Og ekki kjöftuðu þær frá, að minnsta kosti ekki á skiljanlegu máli. Vísurnar mínar og sögurnar voru ætlaðar þeim og engum öðrum, og þær tóku skáldskapinn með sér í sláturhúsið þegar þar að kom, blessaðar skepnurnar.
Ég var orðin tólf ára og var um það bil að ljúka fullnaðarprófi frá Austurbæjarskólanum þegar ég kom út úr ljóðaskápnum og sýndi mömmu minni vísu sem ég hafði ort. Þetta var kveðjuljóð til skólans. Mamma vildi að ég færi með það til Valgerðar kennara og sýndi henni, en ég var með öllu ófáanleg til þess. Óttaðist að Valgerður læsi vísuna upphátt fyrir bekkinn og krakkarnir legðu mig í einelti. Eini maðurinn sem fékk að sjá vísuna auk mömmu var pabbi, sem skrifaði hana niður og varðveitti. Þótt ég vildi ekki gera vísuna mína heyrinkunna utan fjölskyldunnar var ég samt stolt af henni. Feimin og stolt. Ég man alls ekki eftir að hafa haft áhyggjur af Jónasi og Grasaferðinni hans og þeirri fullyrðingu að yrkingar þættu ekki prýða kvenfólk. Kannski var ég bara svona illa lesin.

Seinna rann upp fyrir mér að með kveðjuljóðinu til Austurbæjarskólans hafði ég einnig verið að kveðja bernskuárin. Um svipað leyti fluttum við af Snorrabrautinni í Kópavoginn og allt breyttist, unglingsárin helltust yfir mig með öllum sínum hræðilegu vandamálum og erfiðleikum sem bægðu burt hverri ljóðrænni hugsun. Eina bókmenntalega afrek mitt á þessum Kópavogsárum var skáldsaga sem ég byrjaði á og skrifaði sem óð væri í nokkra daga, þangað til ég las hana yfir og uppgötvaði mér til skelfingar að ég hafði alveg óvart verið að endurskrifa uppáhalds Nonnabókina mína, Borgina við sundið. Nonni var að vísu orðinn að stelpu, en flest annað var óbreytt. Þar lauk ferli þessa skáldsagnahöfundar.

Á menntaskólaárunum tók ég upp ljóðaþráðinn á nýjan leik og næstsíðasta árið mitt í MR var ég orðin svo fífldjörf og framhleypin að ég gekk á fund ritstjóra Skólablaðsins og gaukaði að honum nokkrum óendanlega sorglegum ljóðum sem ég hafði ort í nýrómantískum anda og fjölluðu öll um brostnar vonir, brennda skóga og dánar ástir. Ritstjórinn birti ljóðin í blaðinu og mér til undrunar og gleði gerðu þau þónokkra lukku. Innan skamms voru gáfumenn skólans, jafnaldrar mínir, farnir að tala um mig sem „skáldkonu vora“ í föðurlegum tón. Ég var orðin skólaskáld. Á þessum kaldastríðsárum voru ekki sextán skáld í fjórða bekk einsog þegar Tómas var og orti. Í mínum árgangi vorum við aðallega þrjú, ef ég man rétt, sem ortum í Skólablaðið: Böðvar Guðmundsson, Sverrir Hólmarsson og ég. Böðvar var meistari hins þjóðlega forms, Sverrir var avantgardið, framúrstefnuskáldið - og ég? Ég var stúlkan.

Á einhvern hátt erum við alltaf byrjendur, hver ný skáldkona er Júlíana Jónsdóttir om igen, stúlka sem passar ekki inn í hefðina af því að þar eru fyrir eintómir karlar. Annað hvort lendir hún utanborðs og reynir bara að gleyma þessu, eða hún setur undir sig hausinn og þráast við, storkar hefðinni, hvort sem hún er þess meðvituð eður ei.

Mikið væri nú gaman ef ég hefði treyst mér til að nota þátíð í undangenginni málsgrein og gefa þannig til kynna að auðvitað væri þetta liðin tíð, ástandið væri nú aldeilis betra á vorum póstmódernísku tímum, en ég treysti mér ekki alveg til þess, ekki ennþá. Vissulega hefur margt breyst og ekki vil ég kvarta. Ætli við séum ekki flestar búnar að átta okkur á því sem við vissum ekki áður að það er til kvenleg hefð í bókmenntum og við þurfum ekki að sætta okkur við að vera huldukonur í karlahefðinni lengur? Ungu skáldkonurnar okkar taka þessu auðvitað sem sjálfsögðum hlut enda eru þær kannski ekki mikið að velta hefðinni fyrir sér, en mig langar samt til að minna okkur öll á formæður okkar og skáldsystur sem bjuggu við lakari hlut en við, fengu ekki að mennta sig og áttu hvorki peninga né sérherbergi sem skáldkona getur ekki verið án að sögn Virginíu Woolf. Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum var ein þessara skáldmæltu formæðra okkar, fædd uppúr miðri nítjándu öld. Hún orti ljóð sem mig langar til að lesa fyrir ykkur. Það heitir Óðulin mín:

Ég erfði ögn af söndum
í óðsnillingalöndum,
því sigldi ég seglum þöndum
að söngvaranna ströndum.

Þeim knör ég kunni ei stýra
né kaupa ljósið dýra,
mér lýsti lítil týra,
svo leið ég fann ei skýra.

Ég villtist, varð að strandi
á vanþekkingarsandi,
er starði á óðul andi
og ættmenn þar í landi.

Mín sóllönd því ég seldi
og sigling niður felldi.
Við bjarma af orðaeldi
á ævi sit ég kveldi.

Til að binda enda á þetta viðkvæma umræðuefni væri kannski við hæfi að rifja upp ljóðlínu eftir áðurnefnda Önnu Akhmatovu. Um svipað leyti og ég var að ljúka menntaskólanámi, en Anna átti aðeins nokkur ár ólifuð, orti hún ljóð þar sem standa þessi beisku eða öllu heldur kaldhæðnu orð:

„Því miður er ljóðskáldi skylt - að vera karlmaður...“

Þetta skrifaði hún eftir að hafa öðlast viðurkenningu sem eitt mesta ljóðskáld tuttugustu aldar í Rússlandi og þótt víðar væri leitað. En á Stalíntímanum hafði hún mátt þola miklar hremmingar í heimalandi sínu, útgáfubann í 15 ár, sára fátækt, stöðugar húsleitir og hatursáróður í fjölmiðlum, auk þess sem bæði sonur hennar og eiginmaður voru sendir í fangabúðir. Vissulega voru karlskáld líka ofsótt á þessum voðalegu tímum, en ofsóknirnar gegn Önnu voru oftar en ekki gegnsýrðar af kvenhatri, þeim var ætlað að gera lítið úr henni bæði sem konu og skáldi.

Á sokkabandsárum mínum hafði ég engar áhyggjur af stöðu minni í heimi ljóðskálda. Ég stefndi hinsvegar að því að verða bóhem, leynt og ljóst, enda þótti mér einsýnt að skáld hlyti að vera bóhem, þetta tvennt fór saman í huga mínum. Það var ekki heiglum hent að lifa bóhemlífi í Reykjavík í upphafi sjöunda áratugs liðinnar aldar, en það mátti reyna það. Laugavegur ellefu hafði lengi verið helsta bækistöð listamanna, menntaskólanema og annarra lífsnautnaleitenda, en skömmu eftir að ég var orðin þar stammgestur var staðnum lokað fyrirvaralaust. Á útihurðina var hengt spjald sem á stóð: Lokað af heilbrigðiseftirlitinu, eða eitthvað álíka smáborgaralegt. Sem betur fer var nýbúið að opna annað kaffihús, á Skólavörðustíg. Mokka varð minn staður, þar sat ég oftast þegar ég var ekki í skólanum eða uppi í risi á Tjarnargötu 20, þar sem Æskulýðsfylkingin hafði aðsetur sitt, ungliðahreyfing Sameiningarflokks alþýðu, sósíalistaflokksins.

Þessi kafli skáldævisögu minnar náði líklega hápunkti sínum vorið 1961 þegar ég barði að dyrum í Unuhúsi hjá Einari Braga. Hann hafði fallist á að kaupa af mér þrjú ljóð sem komu svo í Birtingi þá um sumarið. Einari Braga var margt til lista lagt einsog alþjóð veit, og meðal annars kunni hann að skapa þá stemningu sem þarf til að gera augnablik ógleymanleg. Hann gekk að skrifborði sínu hægum skrefum, dró út skúffu og náði í lítinn peningakassa sem hann opnaði með lykli um leið og hann mælti spádómsorðin: „Þessari stund gleymir þú aldrei. Fyrstu skáldalaunin – gjörðu svo vel“, og rétti mér þrjá peningaseðla sem ég get nú ekki með nokkru móti munað hvort voru hundrað- eða þúsundkallar. Hvort heldur var skiptu peningarnir mig miklu máli, en mikilvægi þeirra bliknaði þó í samanburði við þá upphefð og þann heiður að fá ljóðin sín birt í því merka tímariti Birtingi.

Tveimur árum seinna var ég sest að í Moskvu og hætt að yrkja ljóð. Í Moskvu var jafnvel erfiðara að vera bóhem en í Reykjavík svo að ég varð að gefa þann draum endanlega upp á bátinn. Það var fussað og sveiað ef kvenfólk sást reykja, ég tala nú ekki um ef það sýndi sig í síðbuxum á almannafæri eða varð uppvíst að einhverjum enn svakalegri dónaskap. Allt þetta fuss, svo ekki sé minnst á ógnvekjandi mannmergðina á gangstéttum þessarar miklu borgar eða framandi tungumálið sem eftir á að hyggja kann að hafa verið það sem gerði endanlega útslagið, - allt þetta hafði lamandi áhrif á skræfuna mig svo ég steinhætti að yrkja. Ég var komin í ókunnan heim og móðurmálið dugði mér ekki lengur til að lýsa því sem bærðist innra með mér, hvað þá umhverfinu sem ég hrærðist í. Skáldgáfan lá í dvala árum saman. Þessi ár koma ekki við sögu skáldferilsins nema lítillega og þá sem yrkisefni, löngu síðar. Í bókinni Nú eru aðrir tímar, sem kom út 1989, er stuttur ljóðabálkur sem ber heitið Úr myndabók hugans – Moskva. Þar standa meðal annars þessar línur:

Svo ung
svo fávís
og dansaði náttlangt
um strætin

hélt að lygin
væri annarsstaðar

Eftir sex ár í Moskvu fór ég til Kúbu og dvaldist þar önnur sex ár. Ekki var ég fyrr stigin þar á land en ég byrjaði aftur að yrkja. Kúba er eyja á stærð við Ísland og mikill léttir að koma þangað frá kuldalegum víðáttum Sovétríkjanna Allt varð einhvernveginn auðveldara viðfangs, meira að segja ljóðasmíðin.

Þessi langa dvöl mín í skrýtnu löndunum, eða öllu heldur þessi langa fjarvera frá heimahögunum hefur tvímælalaust sett sinn svip á ljóðin mín. Ég geri ráð fyrir að ég hefði ort allt öðruvísi hefði ég tollað heima og fetað hinn íslenska menntaveg. Til að mynda hefði heimþráin þá varla skipað svo stóran sess í bókum mínum. Liggur nokkuð beint við að álykta að í stað hennar hefði komið útþrá.

Fyrsta ljóðabókin mín, Þangað vil ég fljúga, kom út meðan ég bjó enn í Havana. Ég fékk hana þó ekki í hendur fyrr en u.þ.b. hálfu ári eftir að hún kom út, svo lélegar voru póstsamgöngur milli mín og Máls og menningar í þá daga. Svo stóð ég þarna innan um pálmatrén einn sólríkan dag og hélt á þessari bók, þessu andlega afkvæmi mínu, sem ég hafði skilið eftir í höndum útgefandans, Sigfúsar Daðasonar, í síðustu Íslandsferð minni, en hann hafði lesið handritið yfir og bent mér á ýmislegt er betur mætti fara, meira að segja hafnað nokkrum ljóðum, þar á meðal einu á þeirri forsendu að það væri of „Steinslegt“ – (mig minnir að í því hafi komið fyrir orðasambandið „visin hönd“). Nú horfði ég í kringum mig og fann engan lesanda, engan sem ég gæti spurt: hvernig líst þér á? Hvað finnst þér um þetta ljóð, til dæmis, eða þetta? Það sem verra var: ég hafði ekki hugmynd um hvað fólkinu heima fannst um þessa bók, hvort einhver hafði yfirhöfuð tekið eftir henni, hvort einhver hafði keypt hana, lesið hana og jafnvel skrifað ritdóm um hana? Og allt í einu skipti varla nokkur hlutur máli nema þetta eitt: hverjar viðtökur bókin mín hefði hlotið. Nokkru seinna kom í ljós að ég mátti vel við una, gagnrýnendur þriggja blaða höfðu skrifað ritdóma og þeir voru allir vinsamlegir. Ef ég man rétt minntist enginn þeirra á að ljóðin mín væru kvenleg. Ég frétti líka af einni mætri manneskju sem hafði lesið bókina og sagt að lestrinum loknum: „Þessi kona þarf bara að koma heim.“ Þar hitti hún naglann á höfuðið.

Ég var löngu komin heim þegar næsta bók, Orðspor daganna, sá dagsins ljós níu árum seinna. Hafði verið blaðamaður á Þjóðviljanum í nokkur ár, skrifað kvikmyndagagnrýni í sama blað og starfað með Rauðsokkahreyfingunni, auk þess sem ég hafði gert talsvert af því að lesa upp ljóðin mín á samkomum uppreisnarseggja af ýmsum toga. Ég var líka búin að þýða nokkrar bækur, m.a. Meistarann og Margarítu eftir Mikhaíl Búlgakov. Og ég var orðin félagi í Rithöfundasambandinu. Samt minnist ég þess ekki að hafa nokkurntíma sett mér það markmið að verða rithöfundur – þetta bara æxlaðist svona. Eftir að ég hætti í blaðamennskunni (ef blaðamennsku skyldi kalla hjá manneskju sem var og er gjörsneydd því sem kallað er fréttanef) og sat flestum stundum heima yfir þýðingum og yrkingum, átti ég stundum í vandræðum ef fólk spurði mig hvað ég „gerði“ fyrir utan að hugsa um heimilið og börnin, hvort ég „ynni úti“. Mér var gjörsamlega um megn að segjast vera rithöfundur, hvað þá skáld. Þetta skilst mér að sé algengt feimnismál innan stéttarinnar, að því er virðist á heimsvísu, í það minnsta gerði pólska skáldið Wislawa Szymborska þetta að umræðuefni þegar hún tók við Nóbelsverðlaununum 1996. Í þakkarræðu sinni við það tækifæri sagði hún að skáld samtímans væri tortrygginn efasemdamaður, jafnvel og ekki síst gagnvart sjálfu sér, og væri þvert um geð að kalla sig skáld opinberlega, enda væri auðveldara „á okkar háværu tímum“ að viðurkenna galla sína heldur en „kostina, því að þeir eru faldir dýpra og það er varla að maður trúi á þá sjálfur“. Hún sagði að væru skáldin spurð hvað þau væru að fást við, svöruðu þau yfirleitt lágum rómi að þau „fengjust við skriftir“, eða nefndu einhverja aðra vinnu sem þau sinntu meðfram skáldskapnum.

Aldraður sænskur rithöfundur sem ég hitti einhversstaðar á skáldamóti kenndi mér aðferð til að kljást við þetta feimnismál. Þetta var afskaplega virðulegur maður og greinilega búinn að vera skáld mjög lengi, en hann sagði eitthvað á þá leið að þegar hann þyrfti að koma fram sem skáld eða ræða við einhvern um skáldskap sinn þá breyttist hann í það sem hann kallaði sitt „författarjag“ eða „höfundarsjálf“. Hann sagði ýmsar skemmtilegar sögur af sjálfum sér í þessu hlutverki og ég hugsaði með mér að þetta skyldi ég reyna að herma eftir karlinum. Hvort mér hefur tekist það er svo önnur saga.

Þótt mér hafi orðið tíðrætt hér um horfnar stundir og fjarlægar slóðir verður að viðurkennast að þrjátíu ár eru liðin síðan ég sneri heim og því ætti ég líklega að vera löngu hætt að tala um þetta, búin að jafna mig á heimþránni og útlendings-einsemdinni, en einhverra hluta vegna er eins og nostalgían vilji alltaf loða við mig og mín ljóð, kannski býr hún í „höfundarsjálfi“ mínu. Kannski er hún tíminn sem „vill ei tengja sig við mig“, eða fjarlægðin sem „sefur í faðmi mínum“, svo maður vitni nú í tvo skáldkarla í sömu setningunni. Hitt kann líka að vera að ég sé enn haldin „firringunni“ frægu, þessari bókmenntalegu, sem var í svo miklum metum einhverntíma á síðustu öld en hlýtur að teljast tímaskekkja nú, á þessari afþreyingar- og auglýsingaöld, þessum hávaðatímum okkar.

Það væri þó vanþakklæti og beinlínis rangt af mér að halda því fram að ég hafi snúið heim fyrir þrjátíu árum með eintóman barlóm og enga veislu í farangrinum. Þvert á móti kom ég forrík heim: með tvö tungumál sem veittu mér aðgang að tveimur stórkostlegum menningarheimum, þeim spænska og þeim rússneska, og gerðu mér kleift að framfleyta mér og mínum með því að bjóða íslenskum lesendum að njóta með mér nokkurra af þeim bókmenntaperlum sem þessir heimar luma á. Svo ekki sé nú minnst á þá skemmtun og þá ánægju sem þýðingarstarfið hefur veitt mér gegnum tíðina, þetta starf sem er einsog skapað fyrir fólk einsog mig, pedantíska sérvitringa með fullkomnunaráráttu.

Síðan ég man eftir mér hefur heimurinn verið að farast. Ef það var ekki atómbomban var það heimsvaldastefnan, kommúnisminn, alnæmið, ofbeldið, kapítalisminn, klámið, mansalið, eiturlyfin, gróðurhúsaáhrifin, trúarbragðaofstækið, hernaðarhyggjan, náttúruhamfarirnar, hryðjuverka-ógnin, offitan, hungrið, vatnsleysið, fuglaflensan, endalok tungunnar, dauði ljóðsins - svo ekki sé minnst á þá framtíðarsýn sem við blasir ef hvert kínverskt heimili eignast einhverntíma bíl, ísskáp og þvottavél.... alltaf vofði eitthvað yfir okkur, og vofir enn. Samt erum við hér ennþá og veröldin er ennþá fögur, farfuglarnir enn á sínu undarlega flugi og enn eru skáldin að yrkja og finna fyrir þeim „djúpa fögnuði“ sem sköpunartilfinningin vekur. Þrátt fyrir hatrið og stríðin, þrátt fyrir allt.

Eflaust gerast menn skáld af margvíslegum ástæðum, áreiðanlega eru þar fleiri kallaðir en útvaldir, og víst er til fólk sem aldrei ljær neinum skáldskap eyra, hnussar bara ef það heyrir minnst á svoleiðis þvælu. Samt sem áður getum við fullyrt að skáldskapur hefur lifað með mannkyni frá ómunatíð, lifir enn og mun lifa svo lengi sem litlar stelpur og litlir strákar eru eitthvað að gaufa alein, tala við sjálf sig og finna upp á að bulla og raða saman orðum svo úr verða sögur og ljóð.

Ef svo undarlega vildi til að ég hefði rangt fyrir mér og ljóðið gæfi upp öndina einn góðan veðurdag, yrði það varla fyrr en mannkynið hefði endanlega lokið við að „skemmta sér til ólífis“ einsog Neil Postman sagði svo hnyttilega og Sigurður A. Magnússon þýddi. Í grein sem Sigurður skrifaði um bók Postmans fyrir 15 árum standa líka þessi spámannlegu orð: „Mannkynið siglir hraðbyri inní áhyggjulausa leiki bernskunnar þarsem hver andrá er sjálfri sér næg, fortíð eða framtíð skipta litlu eða engu máli, þarsem sagan verður viðfang sérvitringa og óminnið æðsta hnoss“. Slíkt ástand gæti hugsanlega gengið af ljóðinu dauðu, en að þeim dauðdaga yrðu þá engin vitni, því að mannkynið væri búið að skemmta sér til ólífis. Ég trúi samt ekki á þessar málalyktir, enda veit ég ekki betur en við séum þegar komin á þetta barnalega og áhyggjulausa óminnisstig og samt – samt sé ég upp rísa hér á meðal okkar enn eina kynslóð vígreifra ungskálda einsog ekkert sé sjálfsagðara en að ljóðið muni lifa um aldur og ævi.

Sumum kann að detta í hug að þeir skuggalegu hryðjuverkaskúrkar og stríðsóðu heimsvaldasinnar sem nú vaða uppi í heiminum gætu komið ljóðinu fyrir kattarnef, en ég óttast það ekki. Þeir gætu að vísu efnt til „alheimsstríðs“ einsog segir í Síðasta blóminu eftir James Thurber, í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar:

Í stríði því var öllu eytt,
ekki neitt
lifði af þann lokadóm,
nema einn piltur,
nema ein telpa,
nema eitt blóm.

Þar sem er einn piltur, ein telpa og eitt blóm, þar á ljóðið einmitt heima.

2005-09-14T17:00:00 - 2005-09-14T18:00:00