Skip to main content

Sturlustefna

Útgáfuár
1988
ISBN númer
9979-819-49-9
Ráðstefna haldin á sjö alda ártíð Sturlu Þórðarsonar sagna ritara 1984. Ritstjórar: Guðrún Ása Grímsdóttir og Jónas Kristjánsson. 1988. 242 bls. (Papers given at a Conference commemorating the 700 Anniversary of the Historian Sturla Þórðarson. Pp. 242).

Sturlustefna geymir níu erindi sem flutt voru á málstefnu er Stofnun Árna Magnússonar efndi til í júlí 1984 á sjöhundruð ára ártíð Sturlu Þórðarsonar sagnaritara. Ritstjórar bókarinnar eru Jónas Kristjánsson og Guðrún Ása Grímsdóttir en hún skrifar sérstaklega í þessa bók um ævi Sturlu Þórðarsonar. Stefán Karlsson fjallar um alfræðihandrit er geymdi margskyns fróðleik, sem ráða má af lýsingum á því og varðveittum uppskriftum, en handritið sjálft brann í Kaupmannahöfn 1728. Í því hefir m.a. verið annáll, ártíðaskrá og erfikvæði um Magnús konung Hákonarson og þetta efni tengir Stefán ævi, ætt og skáldskap Sturlu og leitast við að finna stafsetningu Sturlu sjálfs í þessu brunna handriti. Hermann Pálsson skrifar um kveðskap Sturlu og dregur fram með dæmum hvert hann sótti fyrirmyndir vísna sinna og lofkvæða um konunga. Nefnir Hermann Sturlu með réttu hagsmið braga sem hann segir mesta virðingarheiti sem haft sé um skáld í fornum kveðskap. Tor Ulset gerði fyrir þessa bók sérstaklega samanburð á Sverris sögu og Hákonar sögu Hákonarsonar eftir Sturlu og finnur sumt sameiginlegt með þeim sögum og gerir ráð fyrir að hann hafi notað Sverris sögu. Jónas Kristjánsson ber saman einkenni Íslendinga sagna og Sturlungu, m.a. hvernig sagt er frá draumum, knattleikum og hestavígum og telur hann að margar munnmælasagnir ráði fjölbreytileika fornsagna. Preben Meulengracht Sörensen ritar um epísk einkenni Íslendinga sögu Sturlu og sagnfræðingarnir Helgi Þorláksson og Magnús Stefánsson rita um stjórnmálaferil hans. Helgi spyr hvort Sturla hafi verið þjóðfrelsishetja en Magnús skýrir hvernig háttað var sambandi hans við Noregskonunga. Guðrún Ása Grímsdóttir rekur hugmyndir sínar um að Íslendinga saga Sturlu sé að einhverju skrifuð eftir minnisgreinum um fébætur fyrir víg og sár. Gunnar Karlsson leiðir rök að því að í Íslendinga sögu megi finna andóf gegn ófriðardýrkun, kannski ádeilu á ófrið. Að lokum ritar bandarísk vísindakona, Marlene Ciklamini, um hvernig trúarviðhorf Sturlu Sighvatssonar koma fram í Sturlungu, og með athugun á ritum kirkjufeðra kemst hún að þeirri niðurstöðu að hann hafi reynt að stilla ofsa sinn og kæfa ofdramb sitt.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 32).