Skip to main content

Oddaannálar og Oddverjaannáll

Útgáfuár
2003
ISBN númer
9979-819-85-5
Út eru komin á einni bók tvö annálarit, Oddaannálar og Oddverjaannáll, sem hvorirtveggja eru samdir á íslensku á siðskiptaöld. Frá þeim tíma eru fá frumsamin rit varðveitt í óbundnu máli á íslensku. Annálarnir geyma margar mislangar frásagnir af helstu atburðum mannkynssögunnar og eru merkilegir vitnisburðir um orðafar, frásagnarstíl og heimsmynd íslenskra lærdómsmanna 16. aldar og mikilvægir hlekkir sem tengja saman miðaldabókmenntir og rit seinni alda.
Oddaannálar hafa ekki verið prentaðir áður. Þeir eru varðveittir í 14 handritum, hið elsta er brot frá 1620–40 og hið yngsta skrifaði Sighvatur Borgfirðingur 1893. Oddaannálar ná frá tíð Adams, forföður mannkyns, til ársins 67 eftir Krists burð og greina upphaf þjóða og fyrstu framfarir, segja af Alexander mikla, stríðskonum í Skýþíu, Amlóða Danaprins og fræknum herkonungum eftir kunnum erlendum veraldarsögum. Oddverjaannáll er varðveittur í 16. aldar handriti sem ætlað er frumrit höfundar. Oddverjaannáll er að upphafi efnislega samstofna Oddaannálum en nær yfir lengra tímabil eða frá því um 100 fyrir Krists burð og til um 1430 eftir Krist. Efnið er víða að dregið, jafnt úr útlendum veraldarsögum sem íslenskum fornritum og eru hér nokkrar greinar um íslenska sögu sem hvergi finnast annarstaðar. Annálssmiðurinn skrifar lipran frásagnarstíl og segist sjálfur hafa unnið verkið þeim góðum mönnum til gamans og fróðleiks sem ekki skilja annarleg tungumál. Sögusýn í Oddverjaannál er í anda þeirra sem ruddu siðskiptum braut og má ætla að efnið hafi verið kennt þeim sem lærðu til prests á 16. öld. Oddverjaannáll er nú prentaður allur í fyrsta sinn, en útdrættir komu fram í útgáfu norska fræðimannsins Gustav Storm á íslenskum miðaldaannálum (Islandske Annaler 1888). Annálatextarnir eru birtir með stafsetningu handrita og í formála gerð grein fyrir aldri, skyldleika, varðveislu og skrifurum og rætt um upptök efnis.

Eiríkur Þormóðsson og Guðrún Ása Grímsdóttir bjuggu ritið til prentunar sem er 417 blaðsíður.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 59).